29.4.2012 | 22:02
Hveiti
Ég fékk mjög gott hveiti hjá Frú Laugu. Ekki það ódýrasta í bænum en það er lífrænt ræktað og steinmalað af fjölskyldufyrirtæki í Piemonte á Ítalíu. Mér fannst mjög gott að baka úr því. Ég prófaði bæði fínt og hart hveiti.
Hjónin í Frú Laugu bentu mér á að prófa að nota 50/50 af hörðu og hvítu hveiti við pizzabakstur og það kom vel út.
Ég skellti líka í nokkur brauð sem smökkuðust vel með að dýfa í smá af ólífuolíunni frá Sikiley og Maldon salt.
Næst ætla ég að prófa að gera þetta brauð.
Og fyrir þá allra hörðustu í samsæriskenningunum þá er hér grein um hveiti. Hvað er satt eða logið veit ég ekki. Ágætt er að lesa allt með fyrirvara og fylgja eigin sannfæringu.
Það er eflaust meiri fróðleikur um hveiti í þessari bók, White bread, sem er einmitt á listanum mínum yfir lesefni sumarsins.
Ég veit bara að ég get ekki sagt skilið við hveiti. Pizza, brauð, pasta...svo yndislega gott. Þá kaupi ég líka bara þau hveiti sem mér finnst girnileg og borða með góðri samvisku.
27.4.2012 | 11:09
Einfalt hvítt brauð - galdurinn er að láta það hefast saman
Ástæðan fyrir öllum þessum uppskriftum mínum af hvítum brauðum er að ég kaupi ekki brauð í búð og stundum vantar manni svona hvítt brauð hér í sveitinni fyrir gesti og gangandi.
Þetta er eiginlega bara pizzadeig með olíu. En hlutfölling til að fá fínasta hvítt brauð eru mjög góð. Fullkomið brauð til að sneiða niður og bera fram með súpu eða pasta.
En þegar þið mótið úr því brauðlengjur eða bollur, látið þær vera nálægt hvor annari svo þær hefist saman í seinni hefun þegar þær eru komnar á ofnplötuna.
Hvítt brauð
- 1/2 L volgt vatn
- 3 tsk þurrger
- 12-14 dl hveiti
- 1/2 dl olía
- 2 msk sykur
Blandið öllu saman í kitchen aid (bætið hveitinu við eftir þörfum) og hnoðið rosalega vel. Látið hefast í 1-2 klst. Sláið niður og skiptið deiginu í 4 eða 5 "subs", þ.e svipuð stærð og lag og brauðin á Subway. Raðið fremur þétt á ofnplötu.
Leyfið þeim að hefast undir klút í hálftíma. Brauðin mega snertast þegar þau eru búnir að hefast, það má svo rífa þau í sundur þegar þau koma úr ofninum.
Bakið í ofni í ca 15 mín eða þar til þau hafa bakast í gegn.
Ég notaði þetta brauð í smokkfisksamlokuna og það var mjög gott. Ég þynnti það aðeins með að sneiða úr því langsum.
Munið bara að nota vel af ferskri basil og kóríander og fullt af chile-hvítlauksolíu sem hljóðar svona:
Chile- hvítlauksolía
- 3-4 Hvítlauksrif
- 2 Chile piprar
- 1 dl Jarðhnetuolía
- Smá salt
Skerið hvítlauk og chile pipar í þunnar sneiðar. Setjið olíu á pönnu við miðlungs hita og bætið út í chile og hvítlauk. Látið malla í nokkrar mín, passið bara að laukurinn brenni ekki. Saltið eftir smekk.
Takið af hellunni og látið kólna. Setjið olíuna í skál og berið fram með einhverjum dásemdar réttinum, í mínu tilfelli, smokkfisksamloku.
26.4.2012 | 09:39
Eldhúsbréf
Hér eru nokkrar fyrir og eftir myndir af eldhúsinu. Loksins er búið að tengja fyrir mig gashellurnar mínar. En hvað það er gaman að vera komin með gashellur. Það hafa verið þó nokkrar framkvæmdir í eldhúsinu undafarið.
Ég datt niður á mynd sem ég tók af eldhúsinu þegar það var mjög hrátt og allt þar inni tímabundið.
Allar hillur og eldhúsbekkurinn eru úr mótatimbri og gamalli hurð. Gamla hurðin, enn með hurðarhúninum er enn notuð sem eldhúsborðplata, það er mjög sætt en ekki mjög praktískt þegar kemur að þrifum þannig að því miður mun hún víkja fljótlega fyrir flísalagðri borðplötu.
Sú mynd minnti mig á að vera dugleg að taka myndir af þróuninni, það er nefnilega gaman að fylgjast með eldhúsinu mótast og verða svo loks eins og ég vil hafa það.
Ég hef verið dugleg að safna hugmyndum á pinterest "mood board" ið mitt. Það var fyndið að sjá hvað ég hef líka verið dugleg að fylgja eftir þeim hugmyndum sem ég hef fundið og líkað.
Sérstaklega fannst mér sniðugt þegar ég fattaði að ég var greinilega undir miklum áhrifum frá þessari hugmynd.
Eins og sést kannski hér á hilluberum, hillum og ljósinu : ) Við ákváðum að skella á vinarlegum grænum lit á vegginn í staðin fyrir hvíta sem fyrir var. Það gerir þetta meira sveitó, svona fyrst við erum í sveitinni.
Svo fann ég þessa bleiku hillu, liturinn var nú ekki það sem heillaði mig, heldur vantaði mig svona diskarekka. Þannig að ég hugsaði sem svo að það er hægt að mála, en ég ætla að leyfa hillunni að vera bleikri þar til ég fæ leið á þvi.
Svo vantar bara diska í hilluna. Þessir einlitu hvítu sem ég á voru ekki að dansa þannig að þetta fær að vera kryddhilla þar til ég finn mér fallega diska.
Eldhúsið er enn í vinnslu, það verður tekinn skurkur um næstu helgi og þá get ég tekið betri myndir og frá sama sjónarhorni og efsta myndir hér.
24.4.2012 | 16:19
Páskarnir eru bara einu sinni á ári...Berja-Sorbet
Maður heyrir oft, "en þetta er bara einu sinni á ári". Ég hef staðið mig að þvi að segja þetta of oft undanfarið! Það eru jól og páskar og sumardagurinn fyrsti og afmæli og sumarbúðstaðarferð, sprengidagur, bolludagur, öskudagur og og og...
Úr varð að ég hef ekki keypt sælgæti síðan um páskana!
Önnur vinsæl setning hjá mér er: Það er í lagi að leyfa sér þetta endrum og eins, orð að sönnu en þá þarf maður líka að hafa góða skilgreiningu á "endrum og eins".
Ég hef verið að nota frosin ber í ýmislegt undanfarið. Ég bý reglulega til "sultu" eða sýróp eða þá sorbet. Ég hef ekki keypt sultur út í búð lengi. Hér stjórnar maður sykurmagni og maður getur notað ýmis önnur sætuefni eins og t.d döðlur.
Það eru svipaðar aðferðir við þetta en svo fer ég að þegar ég geri Sorbet. Þetta er eitthvað sem maður getur leyft sér endrum og eins...
Berja-Sorbet
- 3 bollar frosin ber
- 1 bolli sykur
- 2 bollar vatn
- Safi og zest af sítrónu
- 3 msk appelsínusafi
Blandið öllu í pott og látið suðu koma upp. Lækkið hitann og leyfið malla í 10 mín. Setjið þetta í blender og maukið. Sigtið mestan vökva frá. (Geymið vökvann sem þið sigtið inn í ísskáp, það er gott sýróp). Látið blönduna í ílát sem þolir frost og inn í frysti í a.m.k 3 klst.
Ég er ekki með ísvél þannig að þetta verður harður klumpur og því gott að taka hann út úr frysti örlítið áður en þið ætlið að bera hann fram.
Sömu uppskrift er hægt að nota sem sultu og sleppa því að setja þetta í frysti og ég set hana ekki í blender, heldur bara beint í ísskáp. Þetta mun ekki hlaupa eins og sulta en er rosalega gott, og frábært með pönnukökum og rjóma, sem maður leyfir sér endrum og eins.
23.4.2012 | 10:56
Bækur tengdar mat og matarpólitík (þó ekki uppskriftabækur)
Það er eins gott að ég á ekki sjónvarp, því það er nóg lesefni framundan. Ég er búin að vera að sækja mér "sample" af hinum og þessum bókum hjá Amazon á kindle-inn minn.
Allt bækur sem tengist mat á einhvern hátt. Svona "sample" eru bara 1 eða 2 kaflar þannig að ég fékk valkvíða þegar kom að því að ákveða hvaða bók ég ætti að fá mér því mig langaði að lesa þær allar.
En ég er komin að niðurstöðu og ætla að fjárfesta í bók sem heitir Animal, Vegetable, Miracle og er um fjölskyldu sem flytur upp í sveit og tekur eitt ár í að lifa á eigin uppskeru og því sem fæst í þeirra nánasta nágrenni.
Aðrar bækur sem rötuðu sem "sample" á Kindle-in og mér þóttu áhugarverðar voru:
19.4.2012 | 12:51
Beef dip og ólífuolíuskandallinn
Hafið þið ekki heyrt um ólífuolíu skandalinn hér fyrir nokkrum árum, þar sem extra virgin ólífuolía er ekki hrein ólífuolía heldur oftar en ekki bara ódýrasta olían sem finnst (ekki einu sinni ódýrasta ólífuolían, bara hvaða olía sem er) blönduð við jafnvel annan flokks ólífuolíu og með litarefni og bragðefni.
Það er talað um að um 70% af öllum Extra virgin ólífuolíum í hillum stórmarkaða séu ekki 100%. Ég var að reyna að googla nokkrar tegundir og las á einhverju bloggi að Olitalia sé ekki með hreina ólífuolíu. Það á nefnilega líka við um FLESTAR af þeim olíum sem finnast í búðum hér heima.
Hér er listi yfir ólífuolíur sem eru ekki 100% og þær sem stóðust prófið. Allar þær sem féllu á prófinu fást hér heima, en ég kannast ekki við neina af þessum sem stóðust það.
Hér er rannsóknin og niðurstöður.
Svo var skrifuð var heil bók um málið sem væri gaman að lesa
Hér er smá lesning en ég held það sé ekki hægt að finna betri upplýsingar um ólífuolíu á einum stað en hér
Og fyrst ég er að henda inn öllum þessum linkum á annað borð þá væri gaman að kíkja nánar á þessa síðu.
Ef þið viljið góða ólífuolíu þá mæli ég með Frú Laugu.
Ég treysti þeim. Þeir eru með stóran dúnk af lífrænni olíu frá Sikiley sem mér finnst mjög góð. Þá kemur maður með sína eigin flösku sem maður fyllir á.
Það eru margir þekktir skandalar í matarheiminum. Hér er búið að taka þá saman í eina bók. Það er bara sorglegt að geta ekki treyst fólki til að gera hlutina samviskusamlega.
Ég tala nú ekki um þegar verið að vega að ungum börnum eins og þegar upp komst um mjólkurformúluna í Kína. Þar hafði einhverjum skít verið bætt við formúluna svo hún virtist próteinríkari. Börn dóu eða urðu mjög veik.
Það er bara ekkert skrítið að maður er skeptískur á mat og kaupir ekki hvað sem er þegar allt snýst um að græða og græða meira svo það bitnar á framleiðslunni.
En á léttari nótum...
GLEÐILEGT SUMAR!
Ég ætlaði að gera hefðbundna beef dip samloku um daginn en var ekki með nógu gott kjöt til þess. Það þarf alvöru roast beef þar.
Þannig að ég blandaði saman tveim uppskriftum því ég var að elda flatan klump sem á það til að verða svolítið þurr við ofneldum. Hann hentar víst ekki vel í ofninn, en það er mælt með þvi að steikja hann á pönnu.
Þannig að ég kryddaði hann frekar spicy og endaði svo á að sjóða hann aðeins í soðinu eftir að ég skar hann í þunnar sneiðar. Þetta endaði sem sagt á því að vera ágætis kjöt og það sem eftir var daginn eftir var étið upp til agna af nautabóndanum sjálfum.
Hálfgert Beef dip
- Klumpur
- Oregano, 2 msk
- Heitt pizzakrydd frá pottagöldrum, 1 msk
- Salt, eftir smekk
- Pipar , eftir smekk
Nuddið helminginum af kryddblöndunni á kjötið, lokið því á þurri pönnu á öllum hliðum.
Setjið kjötið i ofnskúffu.
Eldið í 20 mín við 220°c. Lækkið hitann niður í 200°c og bætið við 1 l af vatni og rest af kryddblöndu í ofnskúffuna.
Skerið kjötið þunnt. Setjið soðið úr ofnskúffunni í pott og sjóðið kjötið í soðinu í smá stund ef kjötið er þurrt.
Berið þunnt skorið kjötið fram með soðinu, ítölsku sub brauði, papriku sem þið hafið skorið i strimla og soðið í korter. og jalapeno.
Matur og drykkur | Breytt 1.5.2012 kl. 08:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.4.2012 | 10:09
Enn eitt brauðið, og ekki af verri endanum. Brilliant með brönsinum
Nú las ég að verið sé að gera tilraunir með að auka D vítamín í sveppum hjá Flúðasveppum.
Ég fór aðeins að googla um D vítamín í sveppum og rakst á þessa grein á heillheimur.is.
Hér má lesa aðeins meira um sveppi og D vítamín
Mér finnst bara eitthvað ónáttúrulegt að vera sífellt að breyta mat, en kannski er það bara náttúrulegt fyrst þróunin er þessi og tæknin til staðar.
Ég mun þó halda mig við kjöt án ómega og sveppina sem hafa ekki verið D vítamínbættir og fá mér þá frekar lax með sveppunum til að fá D vítamínið. Ég hef fulla trú á að nóg sé af næringu í fjölbreyttu mataræði.
Ég hef verið dugleg við að gera heimagerð brauð. Ég prófa gjarnan nýjar uppskriftir hvað varðar hlutföll og hvort ég noti egg, mjólk og smjör í degið eða hvort ég geri brauð úr pizzadeigi.
Ég fann uppskrift sem bar titilinn FEATHER LIGHT ROLLS. Feather light hljómaði vel í mínum eyrum enda er maður alltaf að leitast efir því að gera létt og loftrík brauð.
Ég var mjög sátt við þessa uppskrift. Brauðið var bakað í potti, en potturinn þarf að vera Cast iron, enamel eða keramik og ég mæli með því að baka í potti og hafa lokið á.
Laufléttar brauðbollur
- 1 msk ger
- 1 1/4 bolli volg mjólk
- 1/4 bolli sykur
- 1/4 bolli matarolía
- 2 stór egg
- 3 1/2 bolli hveiti
- 1 msk salt
- 4 msk smjör
Blandið saman geri, mjólk, sykur, olíu og eggi í skál. Bætið við 2 1/2 bolla af hveiti og látið vélina vinna í eina mínútu.
Bætið við saltinu og restinni af hveitinu smám saman þar til áferðin er orðin góð. Hrærið í hrærivél í smástund, eða hnoðið með höndum.
Mótið kúlu úr deiginu, setjið í stóra skál, breiðið yfir hana röku viskastykki eða plasti og látið hefast í 1-2 klst.
Skiptið deiginu í kúlur á stærð við tennisbolta, ég gerði 8 kúlur. Setjið kúlurnar í pottinn, eina í einu og rúllið þeim upp úr smjörinu sem er í pottinum.
Lokið pottinum og látið deigið hefast, ca 40 mín.
Þegar deigið er búið að hefast bræðið þá smjörið í pottinum sem þið ætlið að baka það í og veltið pottinum svo smjörið leiti upp á hliðarnar. Eitthvað af smjörinu liggur svo eftir í botninum á pottinum, það er gott.
Hitið ofinn í 180°c. Setjið pottinn í ofninn og bakið í 20 mínútur. Takið lokið af pottinum og bakið í 10 - 15 mín til viðbótar.
Ekki vera að opna ofninn að óþörfu og sífellt kíkja á brauðið á meðan það er með pottlokið. Það lengir eldunartímann.
Takið pottinn úr ofninum, takið brauðið úr pottinum, þökk sé smjörinu þá er það lítið mál.
Eins og alltaf þá eru þessar lang lang bestar enn volgar úr ofninum.
Matur og drykkur | Breytt 7.5.2012 kl. 10:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.4.2012 | 10:07
Húsið við sjóinn
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 10:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.4.2012 | 09:56
Besti eftirréttur sem ég hef smakkað langa lengi, kókós desert
Þetta er einn besti eftirréttur sem ég hef smakkað. Ég smakkaði hann fyrst hjá bóndakonunni á Hálsi og fékk að sjálfsögðu uppskriftina.
Ég lét svo vaða í að prófa hann núna um páskana, sem eftirrétt á Páskadag. Ég var með svo miklar væntingar og vissi svo sem ekki hvort hann yrði jafn góður hjá mér. En, ég fylgdi uppskriftinni samviskusamlega og hann varð alveg jafn góður og sá sem lifði í minningunni.
Þannig að þessi uppskrift er skotheld og ég algjörlega gjörsamlega mæli með því að þið prófið þennan eftirrétt. Hmmmm, það sakar ekki að prófa!
Svona fallegur var eftirrétturinn hjá húsfrúnni á Hálsi
Kókós desert
- 400 ml kókósmjólk í dós
- 30 g kókósmjöl
- 120 g sykur
- 3 gelatin blöð
- 400 ml rjómi
- 2 msk ferskur sítrónusafi
- 10 g vanillusykur (eða 1 tsk vanilludropar)
Kókósmjólk, kókósmjól, sykur, vanillusykur og sítrónusafi sett í pott og fengin upp suða. Takið pott af hellu og látið standa í 5 mín.
Setjið kókósmjólkurblönduna í skál og bætið gelatíni við og hrærið því vel saman við, látið kólna í 40 mín. (Það er hægt að kaupa gelatín unnið úr plöntum!)
Þeytið rjómann og blandið honum saman við herlegheitin.
Kælið inn í ísskáp í a.m.k 2 klst
Berið fram með rifsberjasósu eða einhverri góðri berjasultu. Svo er hægt að skreyta hann með rifnu góðu súkkulaði og blæjuberjum.
Ég notaði þessa uppskrift af sultu með.
Skógarberjasulta
- 2,4 dl blönduð ber (frosin) ég notaði berjablöndu, jarðaber, hindber, bláber ofl.
- 1/2 bolli sykur
- 1/2 dl vatn
Allt sett í pott og leyfið suðu koma upp. Látið þá malla við meðal hita í 10 mín. Setjið sultuna í skál og leyfið henni að kólna. Ef þið viljið hana hana maukaða þá skellið þið henni í blender (eða maukið með töfrasprota)
12.4.2012 | 09:09
Hversdagslífið tekið við og 45 krydda blandan
Ég vona að þið hafið fengið ykkur páskaegg með góðri samvisku þetta árið því það er svo hol(l)t að innan. Er það bara ég eða spændust þessi egg upp eitthvað fyrr en í gamla daga. Ég man þegar maður var lítill þá gat maður verið að maula á einu eggi alla páskana. Nú setti ég brotið eggið á disk og það var horfið áður en ég gat lesið málsháttinn.
Við vorum svo heppin að eyða páskadeginum með nágrönnum okkar hér í sveitinni. Fyrst var farið í brunch til bændanna.
Þar eru skemmtilegir siðir sem húsfrúin kom með sér frá Sviss, þaðan sem hún er. Fyrri siðurinn er að bjóða upp á freyðivín eða Mimosa, ekki slæmur siður það og hinn er einhverskonar eggjaleikur.
Hún litar eggin með náttúrulegum litum, sýður þau með t.d lúsum eða laufum og fær þannig á þau mjög fallega liti. Þessi egg eru ekki hol að innan heldur eru þau soðin í öllu sínu veldi og síðan borðuð. En leikurinn er sá að tveir skella saman eggjum sínum og ef eggið þitt brotnar ekki þá máttu ekki borða það fyrr en einhver annar er með egg til að skella saman við þitt egg þar til það brotnar.
Brunchinn var svo ekki af verri endanum. Margt girnilegt í boði, enda miklir matgæðingar hér á ferð, professional matgæðingar sem reka nautabú og sælkeraverslunina Matarbúrið hér í Kjós.
Það sem mér fannst sérstaklega spennandi var nautatungan. Hún var svo meir og bragðgóð, alveg lungamjúk, eða ætti ég að segja tungumjúk?
Svo var farið heim og slakað á því ekki þurfti ég að sinna kvöldmat heldur. Nágrannarnir hér við hliðina á okkur komu nefnilega í heimsókn kvöldið áður og tóku með sér lambalærið mitt þegar þeir fóru.
Þau lumuðu á allskyns marakóskum kryddum og vildu bjóða okkur í páskamat. Þessir nágrannar eru einnig listakokkar (voðalega er ég heppin með nágranna, allir snillingar í eldhúsinu og hafa gaman að þvi).
Úr varð að þau tóku lærið því fátt fer betur saman en marokkósk krydd og lamb. Og ekki sé ég eftir því. Lambið smakkaðist ótrúlega vel og meðlætið var brilliant og félagsskapurinn draumur einn, því fyrir utan nágrannana í næsta húsi komu líka bændahjónin sem buðu okkur í brönsinn.
Eins og góðum kokki víst sæmir þá var ekki farið eftir neinni sérstakri uppskrift og kryddin sem voru notuð fást ekki hér, en þar var m.a ilmandi cumin og kryddblanda sem nefnist 45 krydda blandan.
Í Marakkó er hver kryddsali með sína eigin "45 krydda blöndu" sem getur þó innihaldið allt að 100 krydd. Þessi blanda nefnist Ras el hanout og er blandað saman af bestu kryddum salans.
Það er smá lesning um Ras el Hanout á wikipedia.
Einnig fór í pottinn sæt kartafla og laukur. Meðlætið var svo kryddaðar sveskjur, lambasoðið, kartöflur og jógúrtsósa. Ég sá um að gera sósuna og reyndi að hafa hana í marókóskum stíl. Því miður átti ég ekki myntu, en myndi eflaust bæta henni við næst svona upp á stílinn.
Magnið í þessari uppskrift er ekki svo nojið. Ég mæli með að þið smakkið hana til.
Jógúrtsósa
- Grísk jógúrt
- Rifin agúrka
- Rifinn sítrónubörkur
- Ferskur sítrónusafi
- Fersk mynta
- Hvítlaukur
- Salt
- Smá pipar
Öllu blandað vel saman í skál. Rífið agúrkuna með rifjárni.
Þetta voru með skemmtilegustu páskum sem ég man eftir.
Heilaga þrenningin var til staðar, góður matur, góð vín
og góðir vinir.
Þið fáið svo uppskrift af brálæðislega góðum eftirrétt næst, ég er að meina það, BRJÁLÆÐISLEGA góður! : )
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 09:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)