29.4.2011 | 10:04
Föstudagsfjör
Jedúddamía, mér finnst alltaf vera föstudagar eftir að ég fór að hafa föstudagsfjör.
Uppskrift vikunnar: Sólarlag í Hvalfirði er réttur vikunnar. Af því að mér finnst svo sniðugt að gera heitan saumaklúbbsrétt og nota bulgur í staðin fyrir brauð. Það mætti jafnvel nota couscous.
Vefsíðan: Marta vinkona www.marthastewart.com er með margt sniðugt á síðunni sinni t.d þessi poki.
Vínið: Þetta var nú ekki mikil vínvika, en fyrir stuttu prófaði ég nokkrar af litlu flöskunum sem fást í ríkinu og mér fannst Faustino VII mjög fín.
Random uppskrift frá matarblogginu mínu: Lax í skál. Skál fyrir því! Það er líka hægt að nota reyktan lax í þessum rétti í staðin fyrir hráan. Þetta er frábær forréttur ef þið eigið von á gestum í mat um helgina.
Tónlist: Eitt fallegt af nýju plötunni með Amiinu
Mynd vikunnar: Ég fór um daginn austur undir Eyjafjöll að hitta vinkonu sem er á fullu í að opna kaffihús, ég segi ykkur meir frá því síðar, en það er spennandi verkefni. Það má fylgjast með bændunum á Hvassafelli og kaffihúsinu þeirra, Gamla fjósið, hér.
Í þeirri ferð fórum við að Seljalandslaug, hún er ansi söndug og það væri vert að taka aðeins til hendinni þar.
Það er Páskadagur hér í sveitinni þegar þetta er skrifað og hér snjóar og það er hífandi rok og skítakuldi. Stundum held ég að þakið ætli af húsinu, er þetta ekki komið gott?
En, þá er lítið annað að gera en að opna góða rauðvínsflösku og skrifa niður allar góðu uppskriftirnar sem hafa orðið til yfir páskana.
Föstudagskvöldið var stórskemmtilegt. Við ákváðum að elda sinn hvorn smáréttinn, og til að fá smá krydd í eldamennskuna þá urðum við að nota hráefni sem hinn aðilinn lagði til. Ég lét kærastann nota bulgur og grænan aspas í dós og hann lét mig nota kjúklingabringu, sykur og sólblómafræ.
Kærastinn gerði dúndurgóðan rétt, í anda saumaklúbbs-aspasréttina. En í staðin fyrir brauð vorum við með bulgur.
(Ég steingleymdi að mynda þessa rétti, vandræðalegt!)
Sólarlag í Hvalfirði
- Aspas í dós
- Bulgur, soðnar skv leiðbeiningum
- Tómatar
- Kartöfluklattar
- Hvítlaukur
- Ostur
- Salt
- Pipar
Kartöflubrauðið rifið niður, tómatar skornir smátt, hvítlaukurinn pressaður. Bulgurnar settar í botninn á eldföstu móti og bleyttar aðeins með safa úr aspasdósinni, restinni dreift yfir og rifinn ostur stráður yfir allt.
Í þessu tilfelli var afgangur af kartöfluklöttum, það má algjörlega sleppa þeim, eða t.d rífa niður soðnar kartöflur og nota í réttinn.
Þetta var bakað í ofni við 200°c í korter eða svo.
Ég þurfti að nota kjúklingabringu, sykur og sólblómafræ og bjó til úr því fyllta tómata með virkilega góðum sumarlegum drykk þrátt fyrir að það hafi ekkert gefið til kynna að sumarið væri komið..
Fylltir tómatar
- Tómatur
- Kjúklingabringa
- Rúsínur
- Sólblómafræ
- Soðnar bulgur
- Lime
- Engifer
- Hvítlaukur
- Mynta
- Smjör
Ég skar í tvennt tómat og skóf innan úr honum. Setti þá í eldfast fat og inn í ofn á meðan ég gerði eftirfarandi:
Ég setti soðnar bulgur í pott með smjöri, myntu, rúsínum, sólblómafræjum, það sem var inn í tómatnum og hvítlauk og lét sjóða saman.
Á pönnu steikti ég kjúkling með hvítlauk, lime, salti og pipar og blandaði honum svo við bulgurnar.
Ég fyllti tómatana í eldfasta fatinu með bulgur-kjúklinga mixinu, dreifði smá rifnum ost yfir og setti inn í ofn á 200°c í smá stund, eða þar til osturinn var fallega bráðnaður.
Ég bar tómatana fram á hvolfi og skreytti með myntu sem ég skar til í hjarta. Rómó...
Páskaliljurnar horfa út um gluggann og skilja ekkert í þessu íslenska sumarveðri.
Með þessu bar ég fram drykk sem var með svipuð element og rétturinn, þ.e lime og myntu til að vinna með bragðinu í réttinum. Einnig notaði ég eitt af því hráefni sem ég varð að nota, þ.e sykurinn.
Þessi drykkur verður á boðstólnum fyrir gesti og gangandi í sumar og heitir:
Velkomin í Hvalfjörðinn
- Sykur
- Lime
- Fersk mynta
- Ferskt engifer
- Sódavatn
- Hvítvín
- Skvetta af Superberries djúsi frá the berry company.
Maukið saman myntu, sykur, lime og engifer, svipað og ef þið væruð að gera Mojito. Hellið saman við það hvítvíni, smá sódavatni og skvettu af berjadjúsi. Það mætti nota hvaða berjadjús sem er, Pomegranate djús væri eflaust rosalega góður líka.
27.4.2011 | 14:54
Kræklingur, nýtíndur og spriklandi ferskur
Á föstudeginum fórum við í sveitina og byrjuðum á því að týna krækling. Nóg var til af honum í fjörunni. Þetta var hin besta skemmtun, góð hreyfing, hressileg útivera og síðast en ekki síst fullur poki af fersku hráefni.
Kærastinn úti að tína krækling í poka
Ég eldaði kræklinginn að þessu sinni svona...
Kræklingur í hvítvínssósu
- Nokkrar lúkur af kræklingi
- Dágóð skvetta af hvítvíni
- Laukur
- Græn paprika
- Tómatur
- Hvítlaukur
- Salt
- Pipar
- Fersk steinselja
- Smjör
- Smá Dijon sinnep
Bræðið smjör. Svitið lauk, hvítlauk, papriku og svo tómata. Bætið við hvítvíni, eins mikið og þarf til að fá gott soð miðað við magn af kræklingi og smakkið svo til með salti, pipar og Dijon sinnepi.
Í þessu tilviki þá sauð ég kræklinginn í smá vatni í öðrum potti og setti hann svo í hvítvínssoðið eftir á því það var svolítill sandur sem fylgdi honum. Vatnið þarf ekki að fljóta yfir kræklinginn heldur lokaði ég pottinum þannig að hann gufusauð einnig og veiddi hann svo upp úr pottinum og setti í hvítvínssoðið.
Berið fram með góðu brauði sem hægt er að drekkja í soðinu.. Ég átti ekki brauð þannig að ég sauð kartöflur, stappaði þær með hveiti og smá vatni og salti og steikti á pönnu, einhverskonar kartöfluklattabrauð. Það var mjög gott. Ég ætlaði að djúpsteikja kartöflurnar og hafa með að Belgískum sið en svo nennti ég ekki að djúpsteikja þannig að ég ákvað að gera klatta, kartöflurnar fara mjög vel með krækling.
Einnig bar ég fram með kræklingnum ferskan lime.
26.4.2011 | 15:15
Fimm daga veisla, dagur eitt...
Ég ákvað að versla ekki í páskamatinn þetta árið. Venjuleg ferð í matvörubúð kostar mig alltaf 15.000 kall plús þannig að ég hefði eflaust endað með 25.000 kr matarinnkaup að miiiinnsta kosti.
Því ákvað ég að kaupa helstu nauðsynjar (7000 kall) og elda úr því sem til væri. Og ekki nóg með það heldur fórum við í sveitina svo það til var var það sem rúmaðist í einum bláum IKEA poka.Ég semsagt gramsaði í eldhússkápunum heima og týndi til það sem mér þótti spennandi og lét það duga.Og hingað til hefur engin soltið, það er búið að vera veisla á hverjum degi síðan á fimmtudag.
Fyrsta daginn okkar í sveitinni fórum við að týna krækling. Úr varð kræklingaveisla tvo daga. Annarsvegar strax eftir að við komum heim úr kræklingatínslu og hinsvegar á laugardagskveldi er við buðum bóndanum og frú af næsta bæ í léttan kvöldverð.
Byrjum á byrjuninni, fimmtudeginum.
Þá var okkur boðið í mat til vina. Þar var nóg til af mat og elduðum við smárétti eftir hentisemi. Þetta er langskemmtilegustu matarboðin sem ég fer í þar sem borið er fram nokkrir smáréttir og hver og einn eldar eins og honum langar úr því sem til. Þetta hentar vel fyrir þá sem hafa gaman að því að elda og langar í smá challenge.
Kjúklingabitar með sesam, sýrópi og soya
Að þessu sinni varð úr 7 rétta veisla með frábærum eftirrétti, sem var þó ekki síðasti rétturinn, eftirréttamilliréttur...
Á boðstólnum var:
- Kjúklingabitar með sesame, sýrópi og soya.
- Nautaframhryggsbiti, létt steiktur á grillpönnu borin fram á baguette með rauðlaukssalsa og klettasalati
- Humar steiktur með sterkri thai chili sósu, kláraður í hvítvínssósu með rjómaosti og vorlauk
- Tikka masala kjúlingur í hrísgrjónapappír með mango chutney og raita
- Lambafille með blómkálssósu og sætri kartöflu.
- Perur í karamellulegi með rjóma og myntu
- Maís tortillameð nautakjöti í Chilpotle Adobo sósu
Og stiklum nú á stóru í þessari upptalningu.
Nautaframhryggsbiti með rauðlaukssalsa
Rauðlaukssalsa
Grillið rauðlauk á grillpönnu (skerið hann þá í fernt t.d ) eða setjið hann heilan í ofn. Skerið smátt og maukið með sýrðum rjóma og salti og pipar.
24.4.2011 | 15:08
Föstudagsfjör á sunnudegi
Áður en við skellum okkur í fjörið þá langar mig að óska ykkur gleðilegra páska. Ég get sagt ykkur það að hér á heimilinu hefur engin orðið svangur og ég þarf að riðja út færslunum um það sem ég hef haft á borðum yfir hátíðina.
En það sem var öðruvísi með þessa páska en svo oft áður var að ég ákvað að fara ekki í matvöruverslanir fyrir tugi þúsunda eins og ég enda oft á að gera. En nóg um það í næstu færslu.
Skellum okkur í fjörið:
FÖSTUDAGSFJÖR Á SUNNUDEGI
Uppskrift vikunnar: Ítölsku kjötbollurnar mínar eru klárlega uppskrift vikunnar. Það verður ekki langt þangað til að ég geri þær aftur og þá verð ég að bjóða einhverjum í mat.
Vefsíðan: Vefsíðan að þessu sinni er http://www.google.com/reader Ef þið eruð að fylgjast með bloggum og síðum sem uppfærast reglulega þá mæli ég með að þið setjið þær inn í google reader, stórsniðugt apparat.
Vínið: Roodenberg, 2008, frá Suður Afríku er fínt vín. Örugglega gott með vænum bbq burger.
Random uppskrift frá matarblogginu mínu: Þessi uppskrift er alveg handahófskennd, grænmetisréttur með marokkóskum áhrifum og er mjög góð. Þetta er svona uppskrift sem hægt er að leika sér með miðað við það sem til er og það sem fólki finnst gott.
Tónlist: Tónlistin sem ég býð upp á á þessum stormasama páskadegi er með hinum geðþekka Einari ormi og vinkonu hans Rósu Ísfeld í hljómsveitinni Feldberg.
Mynd vikunnar: GLEÐILEGA PÁSKA!
Matur og drykkur | Breytt 26.4.2011 kl. 13:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.4.2011 | 12:30
Geðveikt góðar ítalskar kjötbollur, eldaðar úr páskalambinu
Gleðilegt sumar! Í tilefni páskanna er vel við hæfi að bjóða upp á uppskrift af kjötbollum gerðum úr páskalambi, frábærlega góðum lambavöðva.
Og í framhaldi af síðustu færslu þá höldum við áfram með skrif um ítalskar kjötbollur. Eins og ég sagði í síðustu færslu þá var ég búin að skrifa svo langa færslu um kjötbollur að slefið var farið að leka niður munnvikin.
Það átti svo skemmtilega til að ég hafði fjárfest í fjarska fallegum lambavöðva sem gat ekki verið annað en stórfenglegur í kjötbollur.
Þannig að ég skellti honum í kitchen aid hakkarann minn, með grófari stillinguna og einhakkaði vöðvann.
Því næst blandaði ég saman við það sitt lítið af allskonar og bjó til úr því kjötbollur. Ég hafði þær ögn stærri en ég er von eða á stærð við golfkúlu.
Ítalskar kjötbollur
- 1/2 kg lambavöðvi
- 2 hvítlauksgeirar
- Salt
- Pipar
- 1 shallot laukur
- Fersk steinselja, ein lúka
- Rifinn ferskur Parmasenostur, ca ein lúka
- 1 egg
- Lúka af byggflögum
Hlutföllin enn og aftur ekki svo nákvæm, bara fylgja tilfinningunni. Þessu hrærði ég öllu vel saman, mótaði bollur og steikti þær við vægan hita (5) þar til ég var búin að loka þeim á alla kanta. Þá setti ég tómata í dós út í, balsamik edik, sýróp, rauðvín og hvítlauk, salt og pipar.
Notið ferskan parmigiano reggiano ost, ekki svona gerfiduft í dollu.
Það er mikilvægt að vera með góða tómata í sósuna, og mér finnst tómatarnir frá Eden mjög góðir, þeir smakkast mjög ferskir og ekkert edik bragð af þeim. Diced tomatos eru meðal smátt skornir tómatar en Crushed tomatos frá Eden er mjög maukuð sósa og ég notaði hana hér.
Ég notaði þessa uppskrift í sósuna.
- Tómatar í dós
- Hvítlaukur, 1 rif
- Agave sýróp 1 msk
- Balsamic edik, ca 1 msk
- Salt
- Pipar
- Skvetta af rauðvíni
Sauð í 20 - 30 mínútur og bar fram með hægelduðum tómötumog hægelduðum hvítlauk, sem við notuðum til að smyrja á baguettesneiðar.
Bollurnar voru svo góðar að ég ákvað að hafa ekkert pasta eða spagettí með þeim. Þegar þær voru komnar á diskinn raspaði ég heilan helling af ferskum parmigiano reggiano yfir, það er eiginlega nauðsynlegt, hann fer svo vel með bollunum og sósunni.
Gaman að segja frá því og talandi um kjötbollur. Eftir að ég skrifaði þessa færslu fór ég að elda kvöldmat og endaði á að gera bestu kjötbollur sem ég hef gert! Hvorki meira né minna og það er fyndið því þessi færsla fjallar um góðar kjötbollur. Og til að hafa þessa færslu ekki of langa þá kem ég með uppskriftina af kjötbollum kvöldsins á morgun sem er næstum því hinar fullkomnu kjötbollur.
Og þá hefst lesturinn:
Það gerir gæfumun að hægelda tómata, setja þá í ofninn á lágan hita í nokkra klukkutíma.
Það er rosalega gott með kjötbollum. Ég er alltaf að leita að hinum fullkomnu ítölsku kjötbollum. Ég hef ekki enn fundið þær og enn hefur mér ekki tekist að búa þær til sjálf.
Ég datt niður á rosalega heimilislegan ítalskan stað í New York, þetta var eins og að vera komin í eldhúsið hjá ama de la casa, ítölsku ömmu gömlu. Maður labbaði inn langan gang þar til maður kom inn í eldhús með nokkrum stólum og borðum. Þar fékk ég mjög góðar bollur og þær voru svo mjúkar, mér finnst mínar oft verða eitthvað svo steiktar...
Og þetta var svona kjötbollur í sub, lungamjúku brauði.
Ég bjó til kjötbollur fyrir 5 rétta matarboðið, þær voru góðar, en ekki fullkomnar. Ég held að eldunartími sé stórt atriði í að fá þær mjúkar og góðar. Eins hef ég heyrt að gott sé að blanda saman kjöti, ég prófaði það, var með svínahakk, kálfalundir og nautahakk. Svo er málið að vera með góða fitu prósentu, gott krydd og bindiefni svo þær verði ekki lausar í sér.
Gamla góða uppskriftin með ritz kexi og púrrulaukssúpu er klassík, en ekki alveg þessi hefðbundna ítalska eins og ég er að leita að.
Hér er uppskriftin eins og gerði fyrir boðið góða. Ég held að málið sé að steikja þær ekki um of heldur leyfa þeim að eldast í tómatsósunni.
Ítalskar kjötbollur með hægelduðum kirsuberjatómötum og baguette með hvítlauksmauki
- 150 g svínahakk
- 100 g kálfalundir
- 150 g nautahakk
- 1 egg + extra eggjarauða
- 1 dl rifinn parmasnostur
- 1/2 dl steinselja
- Salt
- Pipar
- 1 dl brauðrasp (bleytið aðeins í því)
- Hvítlaukur
Hakkið kjötið og blandið öllu vel saman í skál, mótið úr þessu bollur, aðeins minni en golfkúlur. Létt steikið þær við vægan hita upp úr olíu. Klárið að elda þær í tómatsósunni...
...sem gæti hljóðað svona...
- Tómatar í dós
- hvítlaukur
- Agave sýróp
- Balsamic edik
Allt látið malla.
Hægeldaðir tómatar
- Tómatar (ég notaði kirsuberjatómata)
- Salt
- Pipar
- Hvítlaukur
- Ólífuolía
Skerið tómatana til helminga, raðið þeim á bökunarplötu á bökunarpappír. Dreypið yfir ólífuolíu, saltið og piprið. Skellið nokkrum hvítlaukum með í ofninn, án þess að taka þá úr hýðinu.
Eldið í 120°heitum ofni í 3 klst.
Hvítlaukinn tók ég síðan úr hýðinu og maukaði og smurði það á baguette.
Svo þegar þið eruð búin að elda tómatana þá mætti bræða saman í potti ólífuolíu og sykur og pensla tómatana með því.
Sykurgljái
- 1 msk sykur
- 4 msk ólífuolía
- krydd, t.d 4 msk ferskt oregano
Bræðið sykur í ólífuolíu í potti, bætið við kryddi. Penslið tómata með blöndunni.
18.4.2011 | 16:18
Alinea, svakalega flott matreiðslubók
Ég keypti matreiðslubók út í NY, rosalega flott, algjört listaverk og heitir Alinea, Alinea er veitingastaður í Chicago sem er með 3 michelin stjörnur og kokkurinn þar er þekktur fyrir svokallaða molecular gastronomy
Matreiðslan er ofur metnaðarfull og ég hlakka til að takast á við uppskriftirnar í henni. En fyrst þarf ég að finna út hvað xanthan gum er og hvernig maður notar fljótandi nitrogen.
Inn á milli eru uppskriftir sem ég ætti að ráða við og svo er þetta frábær bók til að fá hugmyndir af skemmtilegum samsetningum og hráefnanotkun og síðast en ekki síst presentation, en útfærslunar á sumum réttum eru vægast sagt magnaðar.
Ég hef fundið nokkrar síður á netinu þar sem fólk hefur eldað allar uppskriftirnar í bókinni og bloggað um það. Ég sé mig nú ekki vera að fara að gera neitt slíkt, en ég mun að sjálfsögðu blogga um það sem ég mun prófa.
Til dæmis þessi gaur, hann er með skemmtilega síðu sem þið getið skoðað hér.
Og að lokum er hér myndband á youtube um veitingastaðinn. Margir myndu eflaust fussa yfir tilgerðinni, en ég hef svo gaman að þessu.
15.4.2011 | 16:01
Föstudagsfjör
Þá er komið að föstudagsfjörinu.
FÖSTUDAGSFJÖR
Uppskrift vikunnar: Ætli það sé ekki bara mánudagsdrykkurinn okkar, sem verður þá að föstudags eða laugardagsdrykki.. GINGER MOJITO
Vefsíðan: Hér er leitarvél sem sérhæfir sig í matarbloggum: foodblogsearch.com
Vínið: Cuvelier Los Andes, fæst reyndar ekki hér heima en mæli með því ef þið eruð á ferðinni, en hér heima mæli ég með Columbia Crest Grand Estates, Merlot frá Bandaríkjunum.
Random uppskrift frá matarblogginu mínu: Þessir er nú ekki valin hjá mér alveg af handahófi en ég er að fara að borða svona í kvöld hjá góðu fólki sem komu mér upp á bragðið. Og nú er það árlegur viðburður hjá okkur að fara í mat til þeirra í sveitakæfu. Hættulega gott..
Tónlist: Krakkarnir í Vicky koma manni í rokkara gírinn fyrir kvöldið, skellið í ykkur einum þreföldum af Ginger Mojito á meðan þið hlustið á Blizzard með Vicky.
Ljósmynd vikunnar: Það var ekki leiðinlegt að fara til New York, draumastaður þeirra sem hafa gaman að því að borða, það get ég sagt ykkur. Maður dó ekki úr hungri. Við náðum í vorið í enda ferðarinnar, það var dásamlegt.
11.4.2011 | 17:04
Mánudagur? Romm með engifer og myntu
Er mánudagur í þér? Þá mæli ég með þessum, hann hristir vel í manni og er frábær mánudagsdrykkur, sérstaklega í þessu óvorlega veðurfari. Hann er stútfullur af engifer sem er víst svo hollt, ekki er það nú verra.
Það kannast flestir við Mojito, en hér er hann spæsaður upp með engifer og nóg af því. Það er rosalega gott. Og fyrir þá sem vilja sleppa áfengi þá er það líka hægt, setið þá bara meir af sódavatni...
Mojito með engifer (fyrir 1)
- 1-2 stilkar fersk mynta
- 2 cm af fínt rifinni ferskri engiferrót
- 1 tsk sykur
- 1 hluti af sódavatni
- 1 hluti ferskur lime safi
- 2 hlutar ljóst romm
Merjið myntuna, sykurinn og engifer saman í morteli eða í glasi með skeið ef þið eigið ekki mortel. Blandið saman vökva og bætið myntu-engifers pestóinu við og hrærið vel saman. (1 hluti getur verið t.d ca 1 skotglas)
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 17:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)