Brandade, saltfisksréttur í tapas veislu á hlaðborðið eða sem forréttur, einfaldur og flottur réttur

Brandade er mjög góður saltfisksréttur og getur verið borinn fram kaldur eða heitur.  Það eru til ýmsar útfærslur á þessum rétt.  Það ætti t.d ekki að nota kartöflur, en það samt alveg gott líka.  Næst ætla ég að prófa hann án þess að nota kartöflur.

brandade

Svona varð mín útgáfa af Brandade

  • 500 g saltfiskur
  • 3 mjög litlar kartöflur eða 1 stór (eða bara eftir smekk)
  • Slatti af ólífuolíu (örugglega 1 dl)
  • 1-2 rif hvítlaukur
  • Salt
  • Pipar

Sjóðið saltfiskinn (tekur ca korter).  Roðflettið og passið að fjarlægja öll bein.  Setjið fiskinn í matvinnsluvél ásamt slatta af ólífuolíu, pressuðum hvítlauk, pipar og salti eftir smekk og soðnum kartöflum ef þið viljið.  Eflaust óþarfi að nota mikið salt ef fiskurinn er saltur fyrir.

Allt maukað vel, þar til blandan er orðin flauelsmjúk.  Borið fram með grilluðu baguettesneiðum.

Ef þið viljið bera hann fram heitan setjið hann þá í eldfast mót og í ofn í smá stund áður en hann er borinn fram.

 


Súpa með Cannellini baunum og grillaðri papriku

Ég gerði mjög milda en góða súpu, hún var ætluð barni þannig að ég hafði hana einfalda.  Það má svo dansa í kringum þessa súpu og krydda að vild.  Ég var með smá ferska basil sem fór vel með.

súpa

Súpa með Cannellini baunum og grillaðri papriku

  • 1 dós canelli baunir
  • 2 paprikur, settar í ofn á grill þar til skinnið brennur
  • 2 shallot laukar
  • 1 hvítlauksrif
  • Salt og pipar
  • Fersk basil
  • Smá rjómi til að bæta á þegar súpan er borin fram
  • Olía

Saxið lauk og svitið hann ásamt hvítlauk.  Bætið við paprikunni og baunum, salti og pipar.  Ég lét þetta malla í nokkrar mínútur áður en ég bætti við um hálfum líter af vatni.  Sauð þetta saman og setti svo í blender, maukaði það vel og aftur í pott.  Þá er þetta komið.  Setti súpu á disk og bar fram með smá rjóma (mætti þeyta hann lauslega, en ekki nauðsynlegt) og feskri basil.

Þetta var mjög gott, ég ætla að halda áfram að þróa þessa.  Það mætti t.d bæta við sætum kartöflum eða öðrum baunategundum, tómötum og svo væri hægt að krydda hana með ferskum kryddjurtum að eigin smekk.

 


Lasagna með kjúklingafarsi og kjúklingabollur úr afganginum af farsinu

Einn af mínum uppáhalds réttum er cannelloni með kjúklingafarsi.  Í gær hélt ég að ég ætti lasagnaplötur inn í skáp og ætlaði því að búa til svipaðan rétt og cannelloni-ið.  Svo barasta átti ég engar plötur þannig að við hentum í ferskt pasta deig og rúlluðum út nokkrum plötum.  Þá hefði verið upplagt að nota þær í að rúlla þeim upp sem cannelloni en mig langaði að prófa að útfæra þennan rétt eins og lasagna.  Og þetta var ótrúlega gott.

Sósan heppnaðist einstaklega vel og vil ég þakka því að tómatarnir (úr dós) eru mjög bragðgóðir,  Crushed tomatoes frá Eden.

Einnig notaði ég shallotlauk í sósuna, það er mjög gott.

lasagna

Lasagna með kjúklingahakki fyrir 2-3

Kjúklingahakk

  • 2 kjúklingabringur
  • skvetta af rjóma (1/2 dl)
  • Lúka af ferskri basil
  • 1 egg
  • 1 hvítlauksrif
  • Salt og pipar

Maukið öllu saman í matvinnsluvél

Tómatsósan

  • 1 dós crushed tomatoes frá Eden
  • 3 shallotlaukar
  • 1-2 tsk Balsamic edik
  • 1 tsk Agave sýróp
  • Salt
  • Pipar
  • Ólífuolía

Svitið lauk og hvítlauk upp úr smá ólífuolíu.  Bætið við tómötum og öllu öðru.  látið malla við vægan hita í korter.

Hér er uppskrift af fersku pasta

Setjið sósu í botninn á eldföstu móti, þvínæst lasagnaplötur og dreifið svo úr kjúklingafarsblöndunni yfir lasagnaplötunar, svona svipað magn og ef um kjötsósu væri að ræða, kannski aðeins meira.  Svo kemur aftur lag af pasta plötum  og ofan á það slatta af tómatsósunni.  Bakið í ofni í 25 mín.  Bæti þá við rifnum osti ofan á og jafnvel ferskri basil og bakið í aðrar 10 mínútur.

sósa-lasagna-kjúklingafars-lasagna-sósa-ostur

Þetta var svona gott, að þetta rétt dugði ofan í tvo.....

lasagna

Svo má móta bollur ef afgangur er af farsinu (nú eða bara gera bollur) og bera fram með sósunni og fersku basil.

kjúklingabollur

 

 

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband