Hvað er hófdrykkja?

Ég get sagt ykkur allt um það.  Ég fór í heimsókn á heilsuhælið síðasta sumar og datt inn á bókasafnið.  Þar greip ég niður í bók um heilsusamlegt líferni og rakst á skilgreiningu á hófdrykkju, og hér kemur hún.

Mér finnst þetta stórskemmtileg skilgreining.  

Hófdrykkja:  Eitt glas á dag.  Ekki fleiri en sjö glös á viku, þó aldrei fleiri en þrjú á dag.

 

Ég splæsti á mjög flott vín í gær, Chateau Michelle frá Bandaríkjunum. Svínvirkaði með Manchego og öðrum góðum ostum.

italian meatballs

Italian meatballs in Spain (fyrir 2 sem smáréttur)

  • Nautakjöt  (innra læri)
  • 1 rif hvítlaukur
  • 1-2 msk haframjöl
  • 1 msk smjör
  • Salt og pipar

Smjörið brætt, hvítlaukur steiktur í smjörinu, haframjöli bætt við, setti í blender með hráu kjötinu.  Salt og pipar eftir smekk.

Búið til litlar kjötbollur og steikið.

Sósa:

  • 1 tómatur
  • 2 msk Pizza/pasta tomate sause úr dós frá Eden
  • Salt og pipar
  • 2 msk rjómi
  • Soðið af pönnunni
  • Maple sýróp, 1 tsk eða svo

Mallað í pottinum í augnablik. Blandið saman við kjötbollurnar.

Berið þær fram á snittubrauði sem er ristað í ofni með smá smjöri og hvítlauk og rífið smá parmasen ost yfir.

 

 

 


200 g nautainnralæri, 3 réttir = vá snilld, sjúklega gott...

Fullt hús fyrir síðasta réttinn.  Þó voru fyrstu tveir afbragðsgóðir. Ég gerði quesadillas fusion, chile con carne meets quesadillas.

Við semsagt höfðum Foodwaves í kvöld.  Ég fór í búð og verslaði 200 g af nauta innralæri, mangó, sesamfræ og vorlauk.  Og svo var notast við það sem til var.

Fyrsti rétturinn var naut í asískum búningi, kærastinn var næstur og gerði naut í ítölskum búningi með spænsku ívafi og að lokum kom ég með quesadilla.

Ég ætla að byrja á að segja ykkur frá þeim rétti.  Allir réttirnir sem við eldum eru smáréttir og því er magnið smátt, matskeið hér, teskeið þar.

quesadillas

Chile con carne meets  quesadillas (smáréttur fyrir 2)

  • Maískólfur, soðinn, 1/2 stk
  • Svartar baunir í dós, 2-3 msk
  • Mangó, ferskur, 4 msk
  • Rauðlaukur, smátt skorinn, 2-3 msk
  • Þurrkaður chile, 1/2 tsk, eða eftir styrkleika hans
  • 1 hvítlauksrif
  • Salt og pipar

 

Allt steikt á pönnu í smáolíu. Skiljið smá eftir af maískólfinum sem þið skerið af og skreytið með (sjá mynd)

---

  • Brauðostur, gouda 17 % , rifinn, ca 4-6 msk
  • Sýrður rjómi, 1-2 msk
  • 1-2 sneiðar niðursoðinn jalapeno
  • Salt
  • Tortilla  kaka, skorin í 8 parta 

Öllu hrært saman og smurt á 4 parta af tortilla kökunni

 ---

  • Nautakjöt, innra læri, 50 g
  • Vorlaukur, smátt skorinn

 

Steikið kjötið upp úr olíu eða smjöri, setjið í skál og dreifið vorlauk yfir og smá salti. 

quesadillas

Setjið grænmetis-mangó blöndu á hina 4 parta af tortilla köku, dreifið kjöti og vorlauk yfir og smá osti.  Setjið í ofn ásamt rest af maískólfi og tortillakökunum með ostablöndunni þar til ostur bráðnar.

quesadillas

Dreifið svo ferskum smátt skornum vorlauk yfir allt áður en þið berið réttinn fram.

 

Með þessum rétti var borið fram Montana frá Nýja Sjálandi.  Virkilega ferskt og gott vín.

 


Rauðvín og humar eða þrif og brauðsneið?

Þá fann ég loksins "gott" tilefni til að drekka fínu rauðvínsflöskuna mína.  Ég var búin að þrífa í rúmar 20 mínútur þegar klukkan var að ganga 21.00 og ég var orðin svöng.

Þannig að í staðin fyrir að fá mér brauðsneið og halda svo áfram að þrífa, þá opnaði ég rauðvín og eldaði humar með hvítlaukssósu.

Draslið og skíturinn fór ekkert (bættist bara við hann með uppvaski og tilheyrandi eldamennskusóðaskap) en humarinn og rauðvínið hurfu, sælla minninga. 

Vínið sem um ræðir er portúgalskt, 2003, Portal Grande Reserva.

Þetta var ótrúlega gott vín, alveg hverrar krónu virði.   Passaði meir að segja ágætlega með humrinum.  En ég myndi samt ekki sérstaklega ráðleggja fólki að drekka þetta vín með humri.  Næst mun ég hafa baguette, góða ólífuolíu, manchego og einhverja góða pulsu.

Ég er búin að bíða eftir tækifæri til að opna þessa flösku, og var einnig með væntingar.  Ég er því ánægð að hún stóðst væntingar..

Ég smakkaði einnig eitt glas af Santa Cristina frá Ítalíu eftir að við kláruðum Potrúgalann.  Afsökunin er sú að mig langaði að sjá hvernig ódýrara vín plummaði sig við hliðina á svona kraftmeira víni og ég verð að segja að það var flott!  Þannig að ég ætla að kaupa mér Santa Cristina fyrir helgina.

Humar er skemmtilegur réttur í tapasveislu.  Hér er uppskrift af einum með mangó og sweet chili sósu.  Mangó fer með vel með humri.

humar

Humar með mangó og sweet chilisósu

  • Humar
  • Brauðrasp 
  • Sweet chili sósa
  • Mangó

Setjið humar í eldfast mót eða á bökunarplötu.  Dreifið yfir hann brauðraspi, helst heimagert og blanda t.d við  það hnetum eða e-ju góðgæti) og bakið í ofn á um 200°c þar til hann er eldaður (kannski 8 - 10 mínútur, fer eftir stærð humars)

Dreypið yfir smá sweet chili sósu og fremur smátt skornum ferskum mangó.


Aspas með myntusmjöri og hráskinku

Ég er með uppskrift í Kökublaði Vikunnar, endilega kíkið á það.  Fullt af fínum uppskriftum í þvi blaði.

Hér kemur enn einn tapas rétturinn og ekki af verri endanum.  Myntusmjörið passaði vel með öllu sem var á boðstólnum. 

Þegar ég heyrði að gestgjafinn ætlaði að léttsteikja ferskan aspas þá ákvað ég að gera myntusmjör, eitthvað sem tekur ekki langan tíma að framreiða og kom með skemmtilegt bragð í flóruna.

Og í tilraunastarfseminni rúllaði ég hráskinku með aspasnum og myntusmjörinu. Nammi namm.

 aspas

Aspas með myntusmjöri

  • Lítill aspas (þessir litlu sætu, rosagóðir)
  • Fersk mynta, eitt búnt
  • Safi úr ca hálfri sítrónu
  • Salt
  • 30 - 40 g smjör

Steikið aspas létt upp úr smjöri og saltið með sjávarsalti og pipar.

Bræðið smjör í potti.  Bætið við safa úr sítrónu og mjög smátt saxaðri myntu.  (má einnig merja myntuna og sítrónu í mortel) Saltið eftir smekk.

Borið fram með hráskinku ef vill.

Ég hef áður bloggað um myntusmjör og þá með hvítum aspas.  Svo mætti nota þetta myntusmjör með svo mörgu öðru, rosa gott t.d að hreinsa það af diskinum með góðu baguette.

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband