8.10.2011 | 16:04
Rauðrófu-tagliatelle með pestó, kræklingum og hvítvíni
Þessi uppskrift er í matreiðslubókinni hans Jamie Oliver, Nakti kokkurinn, sem ég er að elda allar uppskriftirnar upp úr.
Það er ekki flókið að gera sitt eigið pasta, en tekur smá tíma og maður þarf að nostra svolítið við þetta. En algjörlega þess virði. Alveg upplagt að eyða köldum og blautum haustdegi í pastagerð með allri fjölskyldunni, eða góðum vinum og smá vínsopa.
Það er mjög nice að blanda rauðrófum við pastadeig. Þið hafið kannski tekið eftir því að það er búið að vera svolítið mikið um bleikan mat hjá mér undanfarið. En ég keypti 2 rauðrófur sem ég ofnbakaði og þær hafa enst vel.
Rauðrófu-tagliatelle með pestó, kræklingum og hvítvíni
Rauðrófu-pasta(fyrir ca 4)
- 1/2 rauðrófa, vel maukuð, t.d með töfrasprota og smá skvettu af vatni til að auðvelda það að mauka hana
- 3 egg
- 400 g hveiti (og kannski aðeins meir, þar til þetta er orðið að mjúku klísturslausu deigi)
Hnoðið allt saman í höndum eða í hrærivél,ég nota Kitchen Aid).
Geymið pastadeigið í ísskáp í klst í skál undir plasti.
Rúllið út deigið, notið hveiti eins og þið þurfið svo það klístrist ekki við kökukeflið, eða rúllið þetta út í pastavél. Ég var ekki með pastavél þannig að ég notaði kökukefli, og rúllaði það svo upp eins og pönnuköku og skar það í strimla, þá var ég komin með tagliatelle.
Sjóðið í bullandi vatni í 3-4 mín, eða þar til það er tilbúið. Ferskt pasta þarf ekki langa suðu.
Þumalputtareglu í pastagerð er 1 egg á móti 100 g hveiti, en þar sem rauðrófurnar eru blautar þá þarf að auka hveitimagnið
Kræklingur
- 1/2 kg kræklingur
- 150 g hvítvín
- 1-2 hvítlauksrif, pressað í gegnum hvítlaukspressu eða skorið smátt.
- Ferskur svartur pipar
- Smjörklípa
Setjið kræklinginn í rúmgóðan pott, hellið botnfylli af hvítvíni í pottinn, athugið að setja ekki of mikið vín, því við viljum gufusjóða hann, en ekki sjóða. Þannig að það þarf ekki að hylja kræklinginn með vökva. Pressið hvítlauk út í pottinn og jafnvel smá pipar.
Gufusjóðið krækling í hvítvíni og hvítlauk þar til allur kræklingur hefur opnað sig, hendið þeim sem opnast ekki.. (það má líka sjóða hann í vatni)
Þegar kræklingur er tilbúinn hendið þá smjörklípu út í og ferskri steinselju. Ég átti hana ekki til þannig að ég sleppti henni.
Pestó
- 1/4 hvítlauksrif
- 3 lúkur fersk basil
- 1 lúka léttristaðar furuhnetur
- 1 lúka parmasenostur
- Extra virgin ólífuolía
- Salt og pipar
Maukiða allt saman í matvinnsluvél, en hellið olíunni hægt út í þar til þið hafið fengið þann þéttleika sem þið viljið á pestóið. Parmasenostur getur verið saltur, þannig að saltið og piprið eftir á. Jamie talar einnig um að setja smá sítrónusafa út í pestóið því hann magni upp ilminn af basil.
Setjið pasta á disk ásamt kræklingnum, smá skvettu af kræklingasoðinu og pestó. Berið fram með góðu brauði sem þið getið drekkt í soðinu.
Það er mikil matarveisla í Kjósinni í kvöld, ég er mjög spennt en þar verður eldaður matur, beint af býli, en ég segi ykkur allt um það næst.
Ég vona að þið eigið góðan dag og gott kvöld.
Alltaf gaman að eiga góða vini sem benda manni á skemmtilega þætti um mat. Þetta eru þættir með manni sem heitir Heston Blumenthal.
Meðal þess sem hann fjallar um í þáttunum er hvernig maður getur gert pizzu í venjulegu heimiliseldhúsi sem smakkast eins og pizzurnar í Napoli. Það má finna eitthvað af þessum þáttum á youtube.
Mér finnst snilld hvernig hann snýr pönnunni við eftir að hafa hitað hana á hellu og bakar pizzuna á pönnubotninum.
Ég vaaaarð að prófa þetta. Og viti menn....botninn bakaðist á örskots stundu. Ég var með pizzuna í ofninum í innan við 3 mínútur. Málið er að nota cast iron pönnu (pönnu úr steypujárni) því hún hitnar vel, en ég átti bara stálpönnu og notaði hana.
Svo gerði ég þetta aftur, í litlum "sumarbústaðarofni" og notaði pönnukökupönnu. Þetta er svo mikil snilldar aðferð að nú verður ekki aftur snúið. Og næsta mál á dagskrá er að versla cast iron pönnu.
Og þar sem þessi ofn hitnar ekki alveg jafn mikið og stærri ofnar þá varð pizzan að vera lengur í ofninum. EN, algjörlega miklu betri eldunaraðferð. Og nb skaptið á pönnunni kemst ekki inn í ofninn fyrir utan að vera úr plasti. Þannig að það skagar út og ofnhurðin er opin.
Svo er annar galdur, heeeld ég.... Og það er að rúlla ekki deigið með kökukefli heldur snúa því í hringi á meðan maður klípur það út með puttunum þar til maður er komin með nógu stóran hring. Þannig hefur maður ekkert flatt út endana þannig að þeirra verða flöffí og næs.
Pizza bökuð á pönnu - nokkrir punktar
- Ef þið viljið hafa þetta Napoli style þá þarf botninn að vera þunnur og áleggið tómatsósa, fersk basil og helst mossarella di buffola, en þar sem ég hef ekki séð svoleiðis í búðum hér heima þá má notast við mossarella.
- Það er best að gera starter daginn áður, blautt deig sem þið blandið svo saman við pizzadeigið.
- Ég mæli með því að taka skinnið af tómötunum og kjarnahreinsa þá eins og ég gerði við tómatana í þessari færslu áður en þið maukið þá í sósu. Og setjið hvítlauksbita í hvern tómat.
- Ferskur mossarella er lykilatriði, en ekki rifinn plastostur í poka!
- Svo er málið að notuð sé fersk basilika.
- Hafið ofninn eins heitann og þið getið, best er að baka pizzuna í stuttan tíma. Aðferð Hestons er að hita ofninn og setja hann svo á grill, pizzuna á funheita cast iron pönnu og eins ofarlega í ofninn og þið getið, svo pizzan sé mjög nálægt grill elementinu.
Ef þið viljið láta reyna á aðferðina hans Hestons þá er hér búið að útlista nokkuð nákvæmlega hvernig hann fór að í þessum þætti.
Og hér eru ýmsar hugmyndir til að gera góða pizzu betri.
Er ekki upplagt að baka í dag? Veðrið í gær fékk mig að minnsta kosti til þess að henda í þessar súper sætu uglukökur. Það er svo auðvelt að búa þessar til.
Ég notaði devil´s food cup cakeuppskrift frá Martha Stewart. Hún var allt í lagi. En mér finnst alltaf best svona pakkaduft frá t.d Betty eða frá Shoppersrite, Devil´s food kakan, hún var ótrúlega mjúk og flöffí.
Svo hef ég einhverntíman "bookmarkað" þessa uppskrift. Svipuð og hjá Mörtu, bara minna magn.
- Uppáhalds bollaköku uppskriftin ykkar
- Uppáhalds súkkulaðikremið (ég notaði smjörkrem, eða notið tilbúið Betty crocker krem)
- Orios kex
- 1 poki af m&m, notið appelsínugulu og brúnu m&m-in
Búið til bollakökur, setjið á kremið, mótið smá uglueyru úr kreminu, þarf ekki að vera mjög nákvæmt.
Takið Orios kexið í tvennt, ég skóf aðeins af hvíta kreminu ef það var brúnt kex á því til að fá það alveg hvítt. Þegar ég tók þær í sundur þá gerði ég það þannig að það var bara hvítt krem á öðrum helmingnum.
Leggið brúnt m&m á Orios kexið.
Setjið appelsínugult m&m á milli kexins, upp á brún, til að gera nefið.
Ef þið viljið gera þetta einfaldast þá er málið að kaupa kökuduft í pakka, tilbúið krem í dós og svo auðvitað m&m og Orios. Einfalt og flott!