31.1.2012 | 21:15
Rice Krispes kökur með mars og 70 % súkkulaði
Mér finnst þessar þessar Rice Krispies kökur mjög góðar, ekki það hollasta sem maður fær sér en allt er gott í hófi.
Þetta er einfalt og hægt að gera þær með fyrirvara og geyma í ísskáp þannig að þær eru upplagðar í barnaafmæli þegar margt annað þarf að gera samdægurs.
Rice Krispies kökur
- 6 Mars bar
- 150 g smjör
- 150 g rice Krispies
- 240 g 70 % súkkulaði eða mjólkursúkkulaði
Bræðið saman Mars stykkin og smjörið við lágan hita. Þetta tekur smá stund. Blandið Rice Krispies við, varlega svo það brotni ekki.
Leggið Rice Krispies blönduna í ofnskúffu eða fat. (Ætli þetta þeki ekki um 1/3 af ofnskúffu miðað við 2 cm þykkt)
Bræðið súkkulaði og hellið yfir Rice Krispies-ið.
Geymið í ísskáp í smá stund til að kæla kökuna.
Skerið í hæfilega bita.
Ef þetta er hugsað fyrir krakka þá er eflaust betra að hafa mjólkursúkkulaði en fyrir þá sem finnst 70% gott þá mæli ég með því.
Þessi kona sýnir vel hvernig hún gerir þetta með myndum.
26.1.2012 | 20:25
Barnaafmæli
Ég var að baka fyrir barnaafmæli, það var bara sykur og sukk í boði.
Á boðstólnum var meðal annars:
- Pig in a blanket
- Súkkulaðikaka
- Rice krispies bitar
Ég veit nú ekki hvort það sé til einhver sniðug íslensk þýðing á pig in a blanket en það er nú ekki flóknara en pulsubitar í pizzadeigi. Þetta er eitthvað sem slær alltaf í gegn. Úr einum 10 stk pulsupakka fást 40 stk. Ég gerði tvöfaldan skammt og það ást upp til agna.
Ég verð að finna afsökun til að gera þetta aftur fljótlega því ég steingleymdi að mynda dýrðina.
Pig in a blanket (40 stk)
- Pizzadeig
- 1 stór pulsupakki (10 stk)
Deig:
- 1/2 L volgt vatn
- 3 tsk þurrger
- 12-14 dl hveiti
- 1/2 dl olía
- 2 msk sykur
Blandið öllu saman í kitchen aid (bætið hveitinu við eftir þörfum) og hnoðið rosalega vel. Látið hefast í 1-2 klst. Sláið niður og skiptið deiginu í 40 bita. (Skiptið fyrst deiginu í 4 parta og svo hverjum af þeim í aðra 5).
Skerið pulsurnar í 4 parta, einfaldast er að taka allar pulsurnar í einu og skera þær allar í einu fyrst til helminga og svo þá parta aftur til helminga.
Stingið pulsubitunum inn í hvern deigbita. Raðið fremur þétt á ofnplötu. Þeir mega snertast þegar þeir eru búnir að hefast, það má svo rífa þá í sundur þegar þeir koma úr ofninum.
Leyfið hefast undir klút í hálftíma. Bakið í ofni í 10 - 15 mín.
Ég fann á netinu svo rosa flott skreytta köku sem er ótrúlega einföld. Kitkat og m&m.
Kaka
- Súkkulaðikaka á 3 hæðum eða þannig að hæðin sé aðeins minni ein lengd á kit kat.
- Krem
- Kitkat
- m&m
Ég var bara með tvo botna, hélt að þeir yrðu hærri þannig að ég varð að skera kitkatið til helminga, en mæli alveg með að gera stærri kökuna.
Hér er linkur á eina svona flotta.
Næst kem ég með uppskrift af awesome rice crispies bitum.
18.1.2012 | 20:34
Endalausar brauðtilraunir
Þetta brauð var gert miðað við það sem til var og að mig langaði að nota byggmjöl. Þetta var ágætis brauð, fín hlutföll. Þetta er eitt af þessum frekar þéttu brauðum þannig að það er best nýbakað og smakkaðist rosalega vel með heimagerðri lambakæfu eða fullt af smjöri.
Ég ákvað að nota 200 g hvítt hveiti en það er alveg hægt að skipta því út ýmislegt, t.d spelt eða haframjöl.
Brauð
- 200 g hvítt hveiti
- 100 g íslenskt byggmjöl
- 200 g íslenskt heilhveiti
- 1.5 tsk lyftiduft
- 1-2 tsk salt
- Ca 500 ml Ab mjólk, ég þynnti út ca 400 ml ab mjólk með 100 ml af vatni
- 2 tsk hunang
- 100 g sólblómafræ og fimmkorna blanda
Hrærið saman þurrefnum, nema fræjum. Blandið við þetta ab mjólk og hunangi og hrærið saman, en ekki of mikið, bara nóg þannig að allt hafi blandast vel saman. Blandið svo við fræjum.
Bakið í formi sem hefur verið klætt með smjörpappír í 40 mín við 190°. Takið þá brauðið úr forminu og bakið í aðrar 10 - 15 mín til að skorpan verði ekki blaut inn í forminu.
16.1.2012 | 20:26
Að fá sér súpu...spennandi? Ég get að minnsta kosti mælt með þessari.
Kannist þið ekki við það að elda sjaldan súpu því það er ekki nógu djúsí og spennandi. En svo loksins þegar maður fær sér súpu þá hugsar maður, vá hvað þetta er gott, afhverju geri ég þetta ekki oftar.
Það er einmitt það sem ég lenti í um daginn. Ég hafði hugsað mér að gera tómatsúpu því ég átti stóra dós af niðursoðum Roma tómötum sem var opin og þurfti að nota. Ég var alltaf að reyna að finna eitthvað meira spennandi en tómatsúpu til að nýta þessa tómata í. En það var eitthvað sem togaði í mig að gera tómatsúpu.
Og á á endanum fór ég á netið og fann hinar og þessar uppskriftir, tók út það sem mér fannst hljóma vel og setti saman þessa uppskrift miðað við það sem til var og það sem ég hafði lesið mig til um.
Ein af þeim uppskriftum sem ég datt niður á var tómatsúpa sem innihélt ofnbakaðar paprikur. Það err lykilatriðið í þessari ótrúlega góðu og einföldu uppskrift.
Tómatsúpa
- 1 stór dós tómatar í dós, eða tvær litlar. Mér finnst tómatar í dós frá Eden mjög góðir
- 1 laukur
- 3 hvítlauksrif
- 1 paprika
- Rjómi, ætli ég hafi ekki notað um 2-3 dl
- Ólífuolía
- Salt
- Pipar
Skerið papriku í tvennt, setjið hana í eldfast mót með skurðinn niður og skinnið upp og dreypið yfir hana ólífuolíu og salti og pipar. Bakið í ofni við 220°c í hálftíma, síðustu 3- 4 mínúturnar setti ég ofninn á grill til að fá vel svart hýðið, en fylgist vel með þeim því þær brenna fljótt á grilli.
Setjið paprikur í skál og plast yfir og látið standa. Þetta er gert til að hýðið losni auðveldlega af. Fjarlægið brennt hýðið af paprikunum.
Svitið lauk og hvítlauk sem hefur verið skorinn í bita. Bætið við tómötum og papriku og látið malla í korter eða svo. Setjið þetta í matvinnsluvél og maukið vel. Setjið tómatsúpuna aftur í pottinn og bætið við rjómanum, bara eftir smekk, og hitið upp.
Svo er annað, sem að gerir þessa súpu enn meira spennandi og það croutons. Ég hafði súpuna milda og einfalda að ásettu ráði því ég ætlaði að krydda hana upp með croutons.
Croutons
- Brauð sem er dagsgamalt eða meira, baguette eða eitthvað gott brauð
- Ítalsk pastakrydd eða einhverskonar blanda af t.d rósmarín, oregano og basil
- Salt
- Ferskur svartur pipar
- Olía, 3-4 msk
Skerið brauðið í smáa ferninga. Ég notaði brauð sem ég bakaði sjálf úr heimagerðu pizzadeigi.
Steikið þá upp úr ólífu olíu með góðu kryddi.
Berið fram með súpunni.
Til að fá enn meira bragð þá mætti rífa ferskan parmasen ost yfir súpudiskinn.
7.1.2012 | 22:10
Íslenskur matur ...nei, ekki "íslenski kúrinn"
Við höfum tekið okkur til öðru hvoru hér á heimilinu og borðað eingöngu íslenskan mat, mánuð í senn. Já,ég hef talað um það áður, og nú er komið að því aftur. Það er mjög fróðlegt. OG NEI! KEX FRÁ FRÓN ER EKKI ÍSLENSKUR MATUR. Því það er hvorki ræktað og malað hvítt hveiti né ræktaður sykur hér á landi til að nefna fátt eitt sem kex inniheldur.
Fyrir mér er grænmeti sem er ræktað á Íslandi íslenskt, og kóríander frá Engi er nógu íslenskt fyrir mér. Þótt svo að fræ paprikurnar hafi einhverntíma verið flutt til landsins þá er grænmetið sjálft ræktað hér heima og það er það sem ég sækist eftir. Og það er kostur að borða mat sem hefur ekki ferðast um hálfan heiminn og maður veit lítið sem ekkert um hvað varðar framleiðsluferli og geymslu.
Það er nefnilega mjög fróðlegt að taka svona verkefni fyrir, að borða bara íslenskt. Það sem ég er að læra núna er að finna íslenska sæta elementið. Það er ekki mikið um það. Enn sem komið er hef ég einungis fundið hunang sem ætti að teljast alíslenskt.
Ég væri til í að kynna mér nánar framleiðsluferli hunangs, eru býflugurnar kannski bara nærðar á DANSUKKER?
Hunangið sem ég keypti í Frú Laugu, og á því stóð frumraun...
Þannig að þegar uppi er staðið þá sleppir maður algjörlega hvítu hveiti og sykri ef maður borðar íslenskan mat og að sjálfsögðu allri unnri vöru og skyndibita. (Ég myndi gera undantekningu ef ég væri að fara fínt út að borða samt :)
Sem betur fer er farið að framleiða heilhveiti og bygg. Ég finn að ég er fremur háð því þegar kemur að matargerð. En ég hef gert pizzur og pasta og bechamelsósu og margt fleira með bygghveitinu og það var mjög gott.
Vel lyktandi íslenskar gulrætur, sérvaldar...
Íslenskur matur
- Mjólk og hreinar mjólkurvörur
- Smjör
- Ostur
- Hreint skyr (NB HREINT, ekki eitthvað sykursull)
- Egg
- Tómatar
- Sveppir
- Agúrka
- Paprika
- Bygg
- Heilhveiti
- Hunang
- Bláber
- Fiskur
- Kræklingur
- Lambakjöt
- Nautakjöt
- Svínakjöt
- Kjúklingur
- Kartöflur
- Fjallagrös
- Rófur
- Gulrætur
- Kryddjurtir (ræktaðar t.d hjá Engi)
- Salat
....svo fátt eitt sé nefnt. Eins og þið sjáið þá er af nógu að taka og þetta er allt hollt og ferskt!
Það sem ég hef ekki íslenskt er til dæmis baunir, hrísgrjón, laukur, hvítlaukur, engifer, ávextir og ýmislegt grænmeti eins og eggaldin og fleira. Svo má ekki gleyma áfengi, ekkert íslenskt við rauðvín...
Fyrir ári síðan fjallaði ég um matargerð úr íslensku hráefni þar sem ég var að tala um þetta sama ef þið viljið kíkja á það. Og svo talaði ég eitthvað meir um þetta hér.
Ég læri eitt og annað um íslenska framleiðslu á matvælum þegar ég stússast í þessu, það er rosalega gaman. Alla vega,ég mæli með þessu. Þetta fær mann til að hugsa um það sem ofan í mann fer.
Ég minni enn og aftur á bókina hanns Michael Pollan, Mataræði, handbók um hollustu, auðveld og fljótleg lesning og margt áhugavert sem stendur þar og góð áminning um marga hluti.
Nú eru jólin búin, þetta var góður tími í skammdeginu. Enn og aftur, gleðilegt ár og munið að huga vel að mataræðinu. Smá kaffi og smá rauðvín, hitt og þetta af og til og sitt lítið af öllu og eins og Michael Pollan sagði, mest af grænmeti!
Og þá er komin tími á að taka niður jólatréð,ætli ég leyfi jólaseríunni
ekki að loga aðeins lengur í svartasta myrkrinu...
Matur og drykkur | Breytt 9.1.2012 kl. 21:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.1.2012 | 20:04
Hófsemin og hollustan
Hófdrykkja: Eitt glas á dag. Ekki fleiri en sjö glös á viku, þó aldrei fleiri en þrjú á dag.
Ég fór að velta þessari skilgreiningu fyrir mér nú þegar allir ætla að byrja nýtt ár með nýjum heitum. Ég velti því fyrir mér hvort það væri þá ekki hægt að heimfæra þessa skilgreiningu á aðra siði (eða ósiði). Til dæmis gosdrykkju, kaffidrykkju og reykingar. Því eins og máltækið segir víst þá er allt gott í hófi...hvað sem svo er satt eða logið í því.
Svo er það spurning með skyndibitann. Einn Mcdonalds á dag. Ekki fleiri en sjö Mcdonalds á viku, þó aldrei fleiri en þrír Mcdonalds á dag.
Döðlu og apríkósu "kaka"
Þessi kaka (eða massi) er hugsuð með ostum og kexi eða góðu baguette. Hún var á stærð við meðal undirskál hjá mér, ca 15 cm í þvermál.
- 1 poki möndlur (um 200 g)
- 1 poki heslihnetur
- 250 g döðlur
- 200 g apríkósur
- 3-5 msk appelsínusafi
- Smá slurkur koníak eða vatni (ég notaði reyndar vodka) til að hræra saman möndlur í marsípan.
Setjið möndlur og koníak eða annan vökva í matvinnsluvél og hrærið þar til úr verður marsípan klumpur. Takið hann frá og setjið döðlur og apríkósur ásamt appelsínusafa í matvinnsluvélina sem og marsípan, en bara smám saman þar til það maukast vel. Svo koma hneturnar og allt maukað mjög vel.
Mótið þetta í hálfkúlu, setjið á smjörpappír og inn í ofn á 150° c í hálftíma.
1.1.2012 | 21:39
Gleðilegt ár - Fyrsta uppskrift ársins er einfalt brauð
Og að henda í þetta brauð er farið að verða að vikulegum viðburði hjá mér.
Áður en við vindum okkur í brauðgerð þá langar mér að óska ykkur gleðilegs árs og þakka fyrir það liðna. Ég vona að áramótin hafi verið ánægjuleg hjá ykkur. Áramótin í sveitinni voru ljúf. Það var setið að snæðingi með nágrönnunum og vini og farið á brennu í blíðskaparveðri, sem samanstóð að þremur fjölskyldum hér í sveitinni, vinalegt var það.
Ég á vinkonu sem lét mig hafa uppskrift að brauði sem er eldað í potti, sem fer inn í ofn. Hér eru linkarnir sem hún sendi mér en ég breytti uppskriftinni aðeins núna síðast með að bæta við tsk að sykri og það líka kom vel út.
Þetta eru tveir linkar að sömu uppskrift.
http://www.nytimes.com/2006/11/08/dining/081mrex.html
http://www.amateurgourmet.com/2008/12/the_noknead_bre.html
Galdurinn hér er að leyfa deiginu að hefast við allt að 18 klst. En ég held að galdurinn sé líka að hnoða það ekki mjög mikið.
Einfalt brauð
- 3 bollar hveiti (plús aðeins meira til að það klístrist ekki þegar þið hnoðið)
- 1/4 tsk ger (instant yeast)
- 1 1/4 tsk salt
- 1.5 bolli volgt vatn
(1 bolli er 2,4 dl)
Hrærið öllu að ofantöldu saman. Þetta verður klístrað deig og blautt. Leyfið því standa við stofuhita yfir nótt eða í 12-18 klst, lokið skálinni með plastfilmu.
Setjið hveiti á borðið og takið deigið úr skálinni, notið eins lítið hveiti og þið getið til að hnoða deiginu saman í kúlu. Leyfið því að hefast í rökum klút í 2 tíma. Hér á deigið að hefast um helming.
Hitið Cast iron, enamel eða keramik pott í ofninum við 230°c í hálftíma. Veltið deiginu í pottinn, MUNIÐ AÐ POTTURINN ER HEITUR og bakið með lokið á í 30 mín og svo án loksins í 15 mín. Ég fékk minn pott að gjöf og hann fæst í IKEA og hefur reynst mér vel. (Svona blár þungur pottur með loki).
Það eru mjög nákvæmar leiðbeiningar sem fylgja linkunum hér að ofan og ég mæli með að þið kíkið á þá báða.
Svo má bæta fræjum eða ólífum eða því sem ykkur dettur í hug í þetta deig.
Þegar brauðið er tilbúið takið það upp úr pottinum svo það komi ekki raki í botninn á brauðinu.
Mig langar að þakka henni vinkonu minni fyrir þessa uppskrift, það er frábært að baka brauð í potti.
Matur og drykkur | Breytt 5.1.2012 kl. 22:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)