Piparkökur

Það er ekki seinna vænna en að fara að æfa piparkökubaksturinn.  Það er orðið ansi langt síðan ég bakaði piparkökur og komst að því í gær að maður þarf að æfa sig. 

Ég er með ágætis uppskrift.  Gamla uppskrift frá tengdó og þar heita þær Sýrópskökur.

Það sem maður þarf að hafa í huga er bökunartíminn, fyrsti skammturinn hjá mér varð of dökkur þannig að ég endaði á að hafa þær inn í ofninum í aðeins 10 mín. Það var miðað við 200°c.  Ég mætti kannski lækka hitann eitthvað aðeins.  Þær virtust samt alveg bakaðar hjá mér eftir 10 mín enda í þynnri kantinum.

Ég gúgglaði líka heil ósköp af uppskriftum.  Flestar amerískar uppskriftir eru eins og þær sem ég er með en þær íslensku bæta gjarnan við mjólk eða vatni.

piparkökur

Piparkökur

  • 250 g hveiti
  • 125 g sykur
  • 75 g smjör
  • 1/2 bolli sýróp (150 g)
  • 1 tsk kanill
  • 1 tsk negull
  • 1 tsk engifer
  • 1 tsk matarsódi
  • 1 egg

Það var sérstaklega tekið fram að nota Golden sýrópið í grænu dósunum.

Blandið öllu saman í hrærivél.  (Ég skellti öllu í skálina og hrærði vel saman í ca 1 mín, það gekk vel.  Veit ekki hvort það sé eitthvað betra að byrja fyrst á að hræra saman sykri og smjöri og svo þurrefnum, eða hvort þetta komi út á það sama...deigið hjá mér varð a.m.k mjög fallegt).

Látið deigið standa í 1-2 klst í ísskáp eða jafnvel yfir nótt.

Takið deigið út úr ísskápnum, fletjið það  út með kökukefli í þá þykkt sem þið viljið, mínar voru rétt undir 1/2 cm.  Mig langar líka til að prófa að hafa þær aðeins þykkari næst, svona í bland.

Skerið út með piparkökumótum eða hvernig sem þið viljið gera það...

Í uppskriftinni minni er talað um að hafa ofninn á 200°c, kannski ég prófi næst 180°c.  Ofnar eru misjafnir, og hér verður hver og einn að þreifa sig áfram og miða við þykkt piparkökunnar. 

Ég ætlaði að setja á blástur og baka á 2 hæðum, það var ekki að gera sig.  Ég er ekki nógu reyndur bakari til að gera svoleiðis töfrabrögð.

Ég fór ekki út í það að skreyta þær að þessu sinni því þetta var bara æfing.  En ég sé alveg fyrir mér piparkökubakstur með tilheyrandi glassúrskreytingum, jólaöl og gömul góð jólalög á fyrsta í aðventu eða fljótlega í des.

Mér finnst alltaf svo margt skemmtilegt á pinterest.com og gaman að leita þar að hugmyndum og ef ykkur vantar piparkökuuhugmyndir þá er nóg af þeim hér.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband