Eldað með Jamie - Ofnbakaður kjúklingur og risotto með pancetta og rósmarín

Í gær eldaði ég upp úr bókinni minni Kokkur án klæða.

Að þessu sinni valdi ég tvær uppskriftir, kjúkling og svo risotto sem ég taldi geta passað vel með kjúklingnum og viti menn...  Þetta var ljómandi gott.  Þetta er fullkomin máltíð á köldu vetrarkvöldi eða sem hádegismatur á stormasömum sunnudegi...til dæmis.

pancetta

Ég fjárfesti í pancetta til að nota í risottoið. Þegar ég segi fjárfesti, þá meina ég sko fjárfesti því kg kostar 4000 kr.  Þannig að ég keypti 150g.  Pancetta er kallað ítalskt beikon, söltuð og krydduð svínasíða sem er svo þurrkuð.  Mér finnst hún mjög bragðgóð, og alveg þess virði að prófa.  Ég keypti hana í kjötborðinu í Hagkaup, Kringlunni.  Það er líka hægt að nota beikon en það er aðeins önnur stemmning í því.

kjúklingur

Ofnbakaður kjúklingur eða eins og Jamie orðar það:

Minn fullkomni steikti kjúklingur (bls 120)

  • 1.5 kg kjúklingur
  • Salt og pipar
  • 3 lúkur af ferskum smátt söxuðum kryddjurtum. (Basil, steinselju og marjoram)
  • 4 msk ólífuolía
  • 1 sítróna, skorin til helminga
  • 4 lárviðarlauf
  • 2 greinar af fersku rósmarín

(Það var ekki til marjoram þannig að ég sleppti því væri jafnvel hægt að nota ferskt oregano.  Svo er ég með fordóma fyrir lárviðarlaufi þannig að ég sleppti því).

Hitið ofn og ofnskúffu í 225°c.

Skolið kjúkling og þerrið með eldhúspappír.

Nuddið kviðarhol með salti.

kjúklingur

Losið húðina við endann á bringunni frá kjötinu, gerið samt bara smá gat og troðið kryddjurtunum þar inn ásamt smá salti og olíu.

Setjið sítrónu og rósmarín í kviðarholið.  Hér er hægt að binda kjúklinginn svo hann haldist betur saman.  (ég gerði það reyndar ekki því ég var ekki með neitt band).

Skerið 3 skurði í sitthvort lærið og nuddið kryddjurtum þar inn í skurðina. 

Nuddið húðina með ólífuolíu, salti og pipar.

Leggið kjúkling í ofnskúffu með bringuna niður í 5 mín, snúið svo á hina hliðina með bringu niður og bakið í 5 mín.

Setjið svo kjúkling á afturendann og eldið í klst, eða þar til fuglinn er eldaður í gegn.

 

Risotto með pancetta og rósmarín(bls 172)

  • 1 líter kjúklingasoð eða grænmetis, ekki er það verra ef það er heimalagað
  • 1 msk ólífuolía
  • 2 smátt saxaðir shallot laukar
  • 1/2 selleríhöfuð
  • Salt og pipar
  • 2 smátt söxuð hvítlauksrif
  • 400 g risotto
  • 100 ml þurrt hvítvín
  • 70 g smjör
  • 100 g ferskur rifinn parmesanostur
  • 50 g pancetta
  • 2 msk smátt saxað rósmarín

Jamie notar Borlotti baunir, þær voru ekki til þannig að ég notaði engar baunir.

FYLGIST VEL MEÐ RISOTTOINU ALLAN TÍMANN, EKKI LÍTA AF ÞVÍ!!

Hitið soðið.

Hitið olíu, steikið pancetta.

Hitið olíu í breiðum potti.  Steikið við vægan hita lauk og sellerí, allt smátt skorið í 3 mín.  Bætið við hvítlauk og steikið í aðrar 2 mín.

Hækkið hitann og lítið nú aldrei af pottinum.

Setjið hrísgrjónin út í pottinn.  Ekki láta þau samt brúnast.  Hrærið stöðugt í pottinum í 2 mín eða svo.

Bætið við pancetta og rósmarín

Hellið hvítvíninu út í.  Sjóðið niður

Bætið nú einni ausu af soði út í og látið sjóða upp.  Þetta gerið þið svo þar til allt soðið er búið, eina ausu í einu og láta gufa upp þar til næsta ausa er sett í pottinn.  Þetta tekur um 20 mín.

Þegar soðið er búið og allt gufað upp og grjónin tilbúin bætið þá við rifna parmesanosti og smjörinu. Blandið vel saman.

Berist fram strax.

Þennan rétt má bera fram einan og sér eða eins og ég gerði með kjúkling.  Einnig finnst mér alltaf gott að fá risotto með fiskmeti.

Ef þið notið borlotti baunir þá skuluð þið sjóða þær og blanda þeim saman við í lokin.

Hafið ferskan parmesanost á borðin svo hægt sé að rífa smá yfir diskinn sinn, nammi namm.

Svo getið þið leikið ykkur með meðlætið, nýbakað brauð, gott salat osfv.  Mér finnst algjör óþarfi að nota sósu því það myndi taka bragðið frá risottoinu sem er alveg dúndur bragðmikið og gott.

Og hérna var svo smjörið sem ég var að leita að...

smjör á bók

Eiga matreiðslubækur ekki annars að líta út fyrir að vera notaðar?

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband