Rauðrófu-tagliatelle með pestó, kræklingum og hvítvíni

Þessi uppskrift er í matreiðslubókinni hans Jamie Oliver, Nakti kokkurinn, sem ég er að elda allar uppskriftirnar upp úr.

Það er ekki flókið að gera sitt eigið pasta, en tekur smá tíma og maður þarf að nostra svolítið við þetta.  En algjörlega þess virði.  Alveg upplagt að eyða köldum og blautum haustdegi í pastagerð með allri fjölskyldunni, eða góðum vinum og smá vínsopa.

Það er mjög nice að blanda rauðrófum við pastadeig.  Þið hafið kannski tekið eftir því að það er búið að vera svolítið mikið um bleikan mat hjá mér undanfarið.  En ég keypti 2 rauðrófur sem ég ofnbakaði og þær hafa enst vel.

rauðrófupasta

Rauðrófu-tagliatelle með pestó, kræklingum og hvítvíni

Rauðrófu-pasta(fyrir ca 4)

  • 1/2 rauðrófa, vel maukuð, t.d með töfrasprota og smá skvettu af vatni til að auðvelda það að mauka hana
  • 3 egg
  • 400 g hveiti (og kannski aðeins meir, þar til þetta er orðið að mjúku klísturslausu deigi)

Hnoðið allt saman í höndum eða í hrærivél,ég nota Kitchen Aid).

Geymið pastadeigið  í ísskáp í klst í skál undir plasti.

Rúllið út deigið, notið hveiti eins og þið þurfið svo það klístrist ekki við kökukeflið, eða rúllið þetta út í pastavél.  Ég var ekki með pastavél þannig að ég notaði kökukefli, og rúllaði það svo upp eins og pönnuköku og skar það í strimla, þá var ég komin með tagliatelle.

Sjóðið í bullandi vatni í 3-4 mín, eða þar til það er tilbúið. Ferskt pasta þarf ekki langa suðu.

Þumalputtareglu í pastagerð er 1 egg á móti 100 g hveiti, en þar sem rauðrófurnar eru blautar þá þarf að auka hveitimagnið

Kræklingur

  • 1/2 kg kræklingur
  • 150 g hvítvín
  • 1-2 hvítlauksrif, pressað í gegnum hvítlaukspressu eða skorið smátt.
  • Ferskur svartur pipar
  • Smjörklípa

Setjið kræklinginn í rúmgóðan pott, hellið botnfylli af hvítvíni í pottinn, athugið að setja ekki of mikið vín, því við viljum gufusjóða hann, en ekki sjóða.  Þannig að það þarf ekki að hylja kræklinginn með vökva.  Pressið hvítlauk út í pottinn og jafnvel smá pipar.

Gufusjóðið krækling í hvítvíni og hvítlauk þar til allur kræklingur hefur opnað sig, hendið þeim sem opnast ekki..   (það má líka sjóða hann í vatni)

Þegar kræklingur er tilbúinn hendið þá smjörklípu út í og ferskri steinselju.  Ég átti hana ekki til þannig að ég sleppti henni.

Pestó

  • 1/4 hvítlauksrif
  • 3 lúkur fersk basil
  • 1 lúka léttristaðar furuhnetur
  • 1 lúka parmasenostur
  • Extra virgin ólífuolía
  • Salt og pipar

Maukiða allt saman í matvinnsluvél, en hellið olíunni hægt út í þar til þið hafið fengið þann þéttleika sem þið viljið á pestóið.  Parmasenostur getur verið saltur, þannig að saltið og piprið eftir á.  Jamie talar einnig um að setja smá sítrónusafa út í pestóið því hann magni upp ilminn af basil.

pasta og kræklingur

Setjið pasta á disk ásamt kræklingnum, smá skvettu af kræklingasoðinu og pestó.  Berið fram með góðu brauði sem þið getið drekkt í soðinu.

Það er mikil matarveisla í Kjósinni í kvöld, ég er mjög spennt en þar verður eldaður matur, beint af býli, en ég segi ykkur allt um það næst.

Ég vona að þið eigið góðan dag og gott kvöld.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband