Pizza með grísalundum og súrum gúrkum

Það kom mér á óvart hvað pizza með súrum gúrkum er góð! Það var afgangur af marineruðu grísalundinni sem ég notaði í kúbönsku samlokuna.  Ég prófaði því að búa til "Kúbanska" pizzu. 


grísapizza

 Pizza með grísalundum og súrum gúrkum

  • Marineruð grísalund, sjá uppskrift hér
  • Ostur
  • Lúxus skinka
  • Súrar gúrkur, sneiddar niður
  • Bráðið smjör
  • Pizzabotn


Ég gerði góðan þunnann botn og gluðaði á hann smá bræddu smjöri og grísalundinni með slatta að djúsí marineríngunni og í ofn í 5 mín eða svo.  Tók hana út og bætti við osti, lúxus skinku og súrum gúrkum og aftur í ofinn þar til pizzan var bökuð.

Þetta var lostæti.  Ég bar fram með þessu sætt sinnep.  Var að spá í hvort ég hefði átt að setja sinnepið á pizzuna sjálfa áður en hún fór inn í ofn.  Í sjálfu sér þarf ekkert sinnep með þessari pizzu, bara smekksatriði.

Ég er sífellt að reka mig á það að bestu pizzabotnarnir sem ég geri sjálf eru þeir sem ég hnoða extra lítið og læt hefast extra vel.


Kúbönsk samloka

Mig hefur lengi dreymt um Kúbanska grísasamloku, fannst eitthvað svo girnilegt við hana og lét svo loks verða af því að matreiða eina slíka.  Ég varð ekki fyrir vonbrigðum.

Til að útbúa Kúbanska samloku þarf:
Kúbanskt brauð
Mojo marineraða grísalund
Súrar gúrkur
Góða skinku
Ost
Sinnep (franskt sinnep)

samlokubrauð
Svona leit brauðið út 

Ég gerði brauðið, sem er sérstakt kúbanskt samlokubrauð sem þarf að byrja á daginn áður en maður ætlar að borða það, en það er
svo best að borða það fljótlega eftir að það er tilbúið.  Það er reyndar alveg lúmskt gott daginn eftir með slatta af smjöri og salti, og alveg dúndurgott að skera það  í þunnar sneiðar og pensla með olíu og krydda og setja í panini grill.

Það þarf að dudda aðeins við þetta brauð, en tíminn sem fer í það er allur þess virði, því þetta er rosa gott brauð.  Svona á  milli þess að vera franskt baguette og ciabatta

Ég nota bolla mælieiningu í þessari uppskrift, en einn bolli er 2,4 dl.

Kúbanskt brauð

"Drulla"
3/4 tsk þurrger
1/3 bolli volgt vatn
1/3 bolli brauðhveiti

Deig
4 1/2 tsk þurrger
1 msk sykur
1 1/2 bolli volgt vatn
3-4 msk jurtafeiti (við stofuhita)
1/2 skammtur "drulla"  (ég þarf að finna eitthvað betra orð en drulla)
1 msk salt
4 - 5 bollar hveiti

Ég setti vatn og ger í skál og leysti upp gerið, bætti svo við hveiti þannig að þetta varð eins og drulla (paste) en ekki eins og deig. Lét það tjilla í skál með plastfilmu í ísskáp í sólarhring. 

Við notum ekki alla drulluna en restin geymist í ísskáp í nokkra daga eða hægt að frysta.

Þannig að daginn eftir, ca sólarhring síðar hélt ég áfram.  Þá setti ég sykur, ger og 3 msk af volgu vatni í skál og lét gerið taka við sér, tekur um 10 mínútur.  Því næst bætti ég við jurtafeiti, vatni og helminginn af "drullunni"
Hrærði þessu saman með trésleif.
Bætti svo við salti og hveiti, einum bolla í einu og hræri vel. (Í höndum eða vél)

Svo set ég deig á hveitistráðan flöt og held áfram að hnoða, þar til að áferðin er orðin teygjanleg. (það er alltaf talað um 6-8 mín, en það hefur reynst mér vel að hnoða bara í 1-2 mín í höndum)

Setjið deig í olíuborna skál með plastfilmu og látið hefast í um 45 mín.

Skiptið deiginu í 4 parta.  Rúllið út í ca 30 cm langa pulsu og rúnið endana.  (þannig að þetta líti svo út eins og lítið baguette) Hafið 2 brauð á bökunarplötu, á bökunarpappír. með ca 10 cm bil á milli þeirra. Breiðið yfir með rökum klút og látið hefast í klst.

Hitið ofn í 170°c

Bakið í um 30 mín.

Kælið aðeins á grind áður en þið skerið það í sundur.


Grísalund með Mojo marineríngu

Grísalund ca 1/2 kg

Marinering:
20 hvítlauksrif
2 tsk salt
1 1/2 bolli appelsínusafi
Safi úr einni sítrónu og einu lime
1 bolli hakkaður laukur
1 msk oregano
1 1/2 bolli góð ólífuolía


Merjið hvítlauk með hvítlaukspressu og hakkið laukinn og setjið svo allt nema ólífuolíu í mixer. Hitið olíu á pönnu og setjið allt mixið í olíuna og látið malla.  Hrærið vel í.

Stingið fullt af götum með hníf eða gaffli í lundina og hellið svo marineríngunni yfir og látið marinerast í 2-3 tíma eða yfir nótt.  (mætti því gera marinerínguna þegar þið gerið "drulluna" og láta standa yfir nótt)

Eldið svo lundina í ofni í um hálftíma á 180°c

Og svo......

Sneiðið súrar gúrkur, sneiðið ostinn, skerið niður lundina.  Svona farið þið svo að:

Skerið nýbakað brauðið þvert, setjið á ost, skinku, súrar gúrkur, grísakjöt og sinnep.  Ef þið eigið panini grill er um að
gera að skella því þar í smá stund, að minnsta kosti er málið að pressa samlokuna vel saman þegar allt er komið á hana.

Þetta er löng uppskrift, en alveg þess virði að prófa þetta, og ef það er afgangur af grísalundinni þá má nýta hana í ýmislegt, meir um það næst.

Salud!


Rabarbarasulta með engifer

 rabarbari

Þegar kemur að sultugerð þá er það spurning um sykurmagnið, það er yfirleitt talað um 1:1. Ég notaði um 7-800 g en annars er þetta bara smekksatriði.

rabarbari

Rabarbarasulta

  • 1 kg rabarbari
  • 800 g sykur
  • 25 g engifer
  • Safi úr 2 sítrónum

Skerið rabarbarann í litla bita.  Setjið í skál ásamt safa úr tveim sítrónum og sykrinum.  Látið standa yfir nótt (eða í ca 12 klst eða þar til sykurinn er orðinn sýrópskenndur).

rabarbari

Setjið í pott ásamt rifnum engifer og sjóðið í klukkutíma eða þar til þetta er orðið rabarbarasultulegt :)

Mjög einfalt og rosalegt gott með nýbökuðum klöttum eða vöfflum og rjóma.


Uppskrift af rúgbrauði soðið í niðursuðudósum í potti

IMG_8180

 Ég hafði heyrt um rúbrauð eldað í ofni eða í hverum. Svo fékk ég uppskrift hjá tengdó af rúbrauði soðið í vatni í potti í niðursuðudósum og varð að prófa.

Rúgbrauð

225 g rúgmjöl
150 g hveiti
125 g heilhveiti
2 tsk sódaduft
2 tsk salt
1/2 l súrmjólk
325 ml síróp


Öllu hrært saman. Deilist í 5 niðursuðudósir.

Smyrjið niðursuðudósir að innan og setjið smjörpappír í botninn á þeim.

Fyllið dósirnar til hálfs með deiginu.

Setjið dósirnar í pott sem fylltur hefur verið að vatni sem nær upp á miðjar dósirnar.

 IMG_8182 

Leyfið suðu koma upp og lækkið þá á minnsta straum og sjóðið í amk 2 klst. Skv uppskrift var það 2 tímar en ég hafði það í u.þ.b 3.5 klst.

 IMG_8190 

Best með plokkfiski.

 IMG_8192


Honey oat subway langlokubrauð

Það er ótrúlegt hvað maður getur hringsólað á netinu í uppskriftarleit og vaðið úr einu í annað.  Ég byrjaði á að leita að uppskrift að grísalundum fyrir  kúbanska samloku, datt svo niður á víetnamska samloku sem ég þarf að skoða nánar.  Ég endaði á að skoða uppskriftir af sub brauðum sem varð til þess að ég bakaði honey oat subway brauð sem heppnaðist nokkuð vel.

En ég ætlaði að finna uppskrift af kúbönsku samlokubrauði sem ég og gerði en á eftir að prófa.  Grísalundina eldaði ég áðan með marineringu a la cuban sandwich, mínus sandwich en nánar um það allt síðar.


Fyrst ætla ég að koma með uppskriftina að honey oat sub brauðinu.  Þetta var nú ekki nákvæmlega eins og á Subway en mjög gott engu að síður.

subway

Hunangs hafra kafbátur

  • 1 1/2 bolli vatn
  • 1/2 bolli fljótandi hunang
  • 1/3 bolli smjör
  • 5 1/2 bolli hveiti
  • 1/2 bolli Ota hafrar
  • 2 tsk salt
  • 2 tsk þurrger
  • 2 stór egg
  • 1 tsk kalt vatn
  • 1 eggjahvíta
  • 1/2 bolli Ota hafrar


Hitið vatn, hunang og smjör á pönnu.  ATH að það sjóði ekki. 

Blandið saman 5 bollum af hveitinu (skiljið hálfan bolla eftir þar til síðar).

Blandið vökva við þurrefni og hnoðið.

Blandið við eggjum og hnoðið.


Blandið nú restinni af hveitinu við deigið og hnoðið.


Hyljið með plasti eða rökum klút og látið hefast í klst.


Hnoðið deigið niður og skiptið því í 8 jafna hluta.


Rúllið því út í um það bil 15 cm langar "kafbáta" og 3-4 cm þykkar.


Setjið 4 báta á bökunarplötu (2 bökunarplötur fyrir 8 báta).


Hyljið með rökum klút eða plasti, látið hefast í 1 klst.


Hitið ofninn í 170°c.

Blandið saman eggjahvítu og 1 tsk köldu vatni og hrærið saman þart til það freyðir.


Penslið ofan á brauðin með eggjahvítunni og stráið svo höfrum ofan á.


Bakið í ofninum í um það bil 20 - 25 mín.


Kælið á grind.

Svo klauf ég kafbátinn, setti ost og beikon og ristaði í ofni í smá stund, bætti svo við því ferska grænmeti sem til var og bjó til mæjónes með sinnepi.  Þannig að úr varð mjög fín samloka.

Þetta er eiginlega í fyrsta sinn sem mér tekst að gera gott brauð en ekki eitthvað sem er svo hart að það megi rota mann með því.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband